Tuesday, December 20, 2011

Jólahugvekja Brynjars !

Núna eru jólin á næsta leyti og eflaust eru þetta bestu dagar ársins hjá mörgum. Ég hef í gegnum tíðina verið alveg hrikalega mikill "Grinch" og ávallt fussumsveiað yfir jólunum og öllu því stússi. Til að mynda fannst mér alveg æðislegt þegar ég var að vinna einn á aðfangadagskvöld í vinnunni, hámandi í mig kjúklingabringu , grænmeti og ískalt vatn með. En þar sem ég hef fullorðnast og orðinn betri einstaklingur en fyrir tveimur árum , hef ég ákveðið að taka jólunum opnum örmum þetta árið og vera í ógeðslega góðu og skemmtilegu jólaskapi. Fyrir það fyrsta þá fær maður að leyfa sér konfekt og kræsingar eftir fjögurra mánaða strit og puð. Það þýðir víst ekkert að fá eitthvað samviskubit , því maður verður að horfa á "stóru myndina" í öllu saman. Ég er nú búinn að losa mig við 26 kíló á tæpum fjórum mánuðum með samviskusemi og miklum aga í mataræði og því á það alveg að vera leyfilegt að leyfa sér það sem maður vill um hátíðarnar, svo framalega sem það sé í sæmilegu hófi og maður taki vel á því eftir áramót.

Jólin geta verið tími þar sem stressið á til að taka völdin, en það er hægt að díla við það á ýmsan hátt. Persónulega ákvað ég í nóvember að ég myndi klára jólagjafainnkaup fyrir desembermánuð svo ég gæti átt þessa 22 daga, sem ég verð fyrir sunnan, í ró og friði. Það hefur heppnast hreint frábærlega og fyrir vikið er maður rólegri og yfirvegaðri í umferðinni, því maður er jú ekkert að flýta sér í og úr búðum til að redda gjöfum. Það hefur líka tekist vel upp með að taka bjartsýnina og hjálpsemina á þetta. Til að mynda hef ég boðist til þess að elda ofan í fjölskyldu mína alla dagana sem ég verð á Króknum, og þar með talið aðfangadagskvöld. "Gulldrengurinn", eins og systur mínar kalla mig stundum, er víst orðinn nógu fullorðinn til þess að sjá um kræsingarnar ofan í mömmu sína og pabba sinn , sem er ekkert nema hið besta mál. Ég hef það á tilfinningunni að þessi jól eiga eftir að verða með þeim betri sem ég hef átt, þó svo að það sé erfitt að toppa síðustu jól , þar sem ég var í faðmi æðislegu tengdafjölskyldu minnar á Blönduósi.

Það eru ekki bara jólin sem eru tími til að hlakka til , einnig eru áramótin orðin stór hefð hjá okkur Jóhönnu. Gamlársdagur fer nánast allur í það að undirbúa matinn og þetta ferli er nokkura klukkutíma langt, þar sem við gæðum okkur á humarhölum í forrétt , fáum nógan tíma til að melta og síðan er það "Beef Wellington" í aðalrétt , þó svo að ég leyfi oftast Jóhönnu að borða mestmegnis af smjördeiginu utan um kjötið hjá mér. Svo munum við hafa einhvern svakalegan eftirrétt með þessu. Hvítvín, rauðvín, freyðivín og jafnvel Strawberry Daquiri verða borin fram . . en þó skal taka það fram að þetta er náttúrulega bara við tvö, þannig að gamlárskvöld snýst aldrei um neitt fyllerí hjá okkur ... bara eintóm rómantík og huggulegheit. Við kaupum ekki flugelda þetta árið , heldur ætlum við að láta það nægja að horfa á aðra sprengja upp flugeldana í ár .. enda erum við með frábært útsýni yfir Höfuðborgina í stofuglugganum okkar.

Semsagt - Jól og Áramót eru tími sem við eigum að njóta lífsins í botn, taka öllu með yfirvegun og aldrei skilja eftir góða skapið í rúminu þegar við rífum okkur á lappir.

Ég hlakka mikið til þess að hitta Króksara, vini og ættingja um hátíðarnar og ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vonandi mun 2012 vera gott ár fyrir okkur öll.

Kv . Jóla-Binni


No comments:

Post a Comment