Tuesday, December 27, 2011

Stutt en góð jól.

Jólin komu og fóru. Ég hélt norður á fimmtudeginum 22.des og eftir stutt stopp á Blönduósi þá hélt ég "heim" á Krókinn þar sem ég sá aðallega um eldamennskuna alla þá daga sem ég var fyrir norðan, og þar á meðal eldamennskuna á aðfangadagskvöld .. sem sló svo sannarlega í gegn, þar sem foreldrar mínir fengu kærkomna hvíld frá því að elda og vaska upp. Á jóladag komu síðan Höski og Jóhanna og náðu í mig og fóru með mig á Blönduós þar sem ég gat eytt einum sólarhring með yndislegu tengdafjölskyldu minni með tilheyrandi jólaáti og spilum og gleði.

Það tekur sinn toll að borða "óhollt" í 4-5 daga og maður finnur vel fyrir því núna og því þýðir ekkert annað en að vera skynsamur þessa vikuna. En vikan endar þó á gamlárskvöldi þar sem við Jóhanna munum verða ógeðslega rómantísk og elda þríréttaða máltíð með víni, kokteilum, freyðivíni ... þannig að það verður enn ein sprengjan. En þetta eru bara nokkrir dagar á ári og því verður nú að leyfa sér eitthvað gotterí á þessum dögum. Maður má ekki taka sig alltof hátíðlega um hátíðarnar... eins kjánalega og það hljómar. Það er víst nógu mikill tími framundan til þess að lifa skynsömum lífsstíl :)

En það sem er framundan hjá okkur hjúunum í Kjarrhólmanum er auðvitað gamlársdagskvöld og aðeins 13 dögum eftir þá gleði þá höldum við ásamt móður minni og báðum systrum til Manchester England England , þar sem við ætlum að sjá flottasta knattspyrnuliðið á Englandi spila unaðslegan bolta á móti Bolton... og það verður jafnvel fengið sér nokkra kalda í leiðinni .. enda ekki á hverjum degi sem við fjölskyldan förum til útlanda saman.

Ég vil nota tækifærið svona rétt fyrir áramótin og biðja ykkur um að lifa heil og vera glöð á árinu 2012.

Kv. Binni

No comments:

Post a Comment