Sunday, January 8, 2012

Að gera vel við sig !

Þrátt fyrir alla lifnaðarhætti hollustulífsins , þá er ég ennþá mikill matgæðingur. Ég elska mat og hef sérlega mikla ástríðu í því að elda góðan mat. Þess vegna reyni ég að gera vel við okkur Jóhönnu um helgar og reyni að elda góðan mat. Ég fann um daginn eina auðveldustu uppskrift af rauðvínssósu á netinu og ég verð að segja að þetta er orðin uppáhalds sósan mín ... jafnvel betri en sósan á Jensen´s Böfhus , sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi þegar maður fer til Sverige eða DK.

Hérna er mín samsetning á yndislegum laugardagsmat og hvernig ég elda þetta allt saman.

Lambafillet með ofnbökuðum kartöflum, steiktu grænmeti og rauðvínssósu.

Ég reikna með uppskrift fyrir 2 þannig að ég byrja á því að taka eina sæta kartöflu og 3-4 venjulegar kartöflur. Sker þær í hæfilega þykkar sneiðar og legg í bleyti í smá stund. Tek þær síðan úr vatninu og set á ofnplötu með bökunarpappír undir. Skvetti smá ólífuolíu á þær og set inn í ofninn sem ég stilli á 180 gráður. Þær þurfa alveg góðan klukkutíma í ofni, ef ekki lengur. Það getur verið gott að láta bara venjulega kartöflurnar fyrst og henda svo inn sætu kartöflunum eftir svona korter , því þær þurfa styttri tíma inn í ofni.

Á meðan kartöflurnar eru að krauma , þá tekur maður lambafillet og "lokar" þeim á sjóðheitri pönnu með smá olíu. Loka öllum hliðum með því að steikja þær í 1-2 mínútur á hliðunum. Krydda með salti og pipar og setja þær í eldfast mót - Þær þurfa að vera svona hálftíma - 45 mínútur, fer eiginlega allt eftir þykkt kjötsins og einnig eftir því hvernig þið viljið kjötið ykkar. Ég miða út frá Medium-Rare , en gott er að eiga kjöthitamæli til þess að fylgjast með steikingunni. Reynið að tímasetja það hvenær þið látið inn kjötið , miðað við kartöflurnar , svo allt sé tilbúið á svipuðum tíma.

Rauðvínssósan:

3 dl vatn
2 kjötkraftsteningar
2 dl rauðvín
30 gr smjör
6 shallot-laukar
salt og pipar
olía
Smjörbolla til að þykkja sósuna.
Sósulitur.

Aðferð:
1. Saxið niður laukana mjög smátt niður og steikið létt í olíu
2. Hellið rauðvíninu saman við og leyfið að sjóða niður um helming , það gæti tekið um 5-7 mínútur
3. Bætið þá við vatninu og teningunum og smjörinu og hrærið vel þangað til allt er búið að leysast upp. Setjið salt og pipar og smakkið til og sósulitinn til að fá fallegan lit á sósuna. Til þess að þykkja sósuna , þá er fínt að hræra saman bráðnu smjöri og hveiti/spelti og hræra svo út í.
4. Leyfið sósunni að sjóða síðan á vægum hita í smá stund.

Með þessu öllu saman er svo gott að steikja grænmeti á pönnu og er það náttúrulega eins auðvelt og það hljómar. Við skerum niður sveppi, rauða papriku og rauðlauk. Steikjum síðan á pönnu og kryddum aðeins með salti og pipar og jafnvel einhverjum kryddjurtum eins og timjan, rósmarín eða einhverju góðu grænu kryddi. Steikt þangað til að grænmetið er orðið fallega gulllitað og girnilegt.

Núna ætti allt "Preppið" að vera tilbúið og þá er bara að tímasetja sig vel með allt saman. Kjötið og kartöflurnar eru náttúrulega það sem þarf einna helst að vera á sama tíma tilbúið, sósuna má gera á undan og hita síðan upp , og grænmetið tekur minnsta tímann.

Ekta laugardagsmatur og alls ekki mikil fyrirhöfn og kostnaður "hæfilega" mikill.

Njótið vel :)

1 comment: