Monday, February 27, 2012

Mars > Febrúar

Það gleður mitt litla hjarta þegar snjóinn tekur að leysa og slabbið og hálkan kveðja göngustígana. Að fá smávegis hlýju og auða göngustíga og götur hjálpar mér alltaf að drattast út úr húsi og labba þessa 4 kílómetra á dag, sem ég hef verið að gera undanfarna mánuði út af brjósklosinu í bakinu á mér. Þegar snjórinn kom, þá fann ég alltaf ástæður til þess að sleppa því að fara út að ganga, sem er heimskulegt, því þessir göngutúrar eru það langbesta sem ég get gert fyrir bakið á mér. Maður á auðvitað ekki að láta einhvern snjó stöðva sig , enda er þetta víst bara einn líkami sem við fáum og ég ætla mér ekki að vera með ónýtt bak að detta í 28.aldursárið . . það kemur bara ekki til greina.

En síðasta vika var alveg ágæt, miðað við undanfarnar vikur. Mataræðið var tiltörulega rétt og hollt og ég náði að léttast um nokkur hundruð grömm á vigtunardeginum á föstudaginn , sem er bara besta mál , enda er ég ekki að gera mér neinar vonir um að missa helling af kílóum í viðbót , enda yrði það sennilega ekkert fallegt.

Ég hef örugglega ekkert verið að setja inn þyngdina á mér hérna inn, að ég held. Þegar ég byrjaði að taka mig á þann 28.ágúst þá mældist ég 121,1 kg , sem er náttúrulega bara alveg fáránlegt. Ég hef þó mest verið í 126,5 kg í kringum 2008 og þá náði ég að léttast niður í 92 kg þegar ég var hvað léttastur og miðað við myndir sem maður hefur skoðað frá þeim tíma, þá virðist 92 kg vera aðeins of lítið. Í dag er í kringum 95 kílóin og er mjög sáttur við þá tölu og því er eins gott að ég tek lítið sem ekkert mark á BMI-stuðlinum.

BMI-Stuðull :

Líkamsþyngdarstuðullinn fæst með því að deila þyngdinni í kílóum með hæðinni í metrum í öðru veldi. Þá fæst stuðull sem hægt er að bera saman við ákveðin viðmiðunargildi og meta þannig holdafarið.

Viðmiðunargildi kjörþyngdar , ofþyngdar og offitu.

Kjörþyngd: BMI 18,5 - 25
Ofþyngd: BMI 25 - 30
Offita: BMI yfir 30


Ef við reiknum hæðina á mér (188cm) og þyngdina (95kg) þá fáum við út 26,9 , sem þýðir samkvæmt þessu að ég sé í ofþyngd. Til þess að geta verið allavegana í kjörþyngd yrði ég að vera í kringum 85-87 kg , sem þýðir að ég yrði að losa mig við 8-10 kg í viðbót .. sem meikar engan sens því ég yrði bara horaður með þessu áframhaldi. Þess vegna er gott að hafa það til hliðsjónar að BMI getur ekki reiknað með beinaþyngd, líkamsbyggingu eða öðru. Þetta er sjálfsagt ágætis stuðull til þess að reikna eitthvað gróflega út ... en ég læt sko ekki neinn BMI stuðul segja mér að ég sé í ofþyngd.

Langbesta leiðin til þess að mæla sig á einhvern hátt, er auðvitað að taka málin á sér með málbandi og fylgjast með á vigtinni. Ég mæli með því að fólk prófi að fara allavega í fituprósent-mæingu hjá einhverjum sem kann á það, fyrir komandi átök og láti mæla sig reglulega. Ég persónulega þyrfti sjálfur að gera það við sjálfan mig en ekki alltaf bara horfa á tölurnar á vigtinni.

En ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í dag - Næturvaktavika hjá mér þessa vikuna , þannig að sólarhringurinn verður öfugur sem og matartímarnir ... krefjandi en skemmtilegt engu að síður.

Kv. Binni

Thursday, February 23, 2012

Allt í rétta átt.

Eftir að hafa byrjað þessa viku frekar illa, þá var ég frekar hissa á því , þegar ég steig á vigtina í morgun, að ég er búinn að léttast frá því í síðustu viku og gæti náð einhverjum grömmum af mér fyrir vigtunardag á morgun.

Það er alveg merkilegt hvað einn dagur af hollustu og smávegis hreyfingu getur bætt upp fyrir þrjá daga af óhollustu og leti. Í dag er ég eins og nýr maður , finn töluverðan mun á öllum líkamanum frá því í gær , er ekki eins útþembdur og skapið er gott.

Í kvöld verð ég að ná að sveigja framhjá mestu óhollustunni, því að tengdapabbi er að bjóða okkur Jóhönnu á Úrillu Górilluna í mat og boltagláp og því verð ég er reyna að halda mig við einhvers konar salat og drekka nóg af vatni með ... ekkert "Börger og bjór" i´þetta skiptið. Ennfremur stefni ég á það að taka næstu viku með trompi, enda Skagfirðingakvöld framundan og vill maður náttúrulega líta sæmilega út fyrir það.... spurning hvort maður raki á sér kollinn ?

Kemur allt í ljós :)

Tuesday, February 21, 2012

Andleysi.

Síðustu dagar hafa verið frekar andlausir hjá mér , sem er engum öðrum en mér sjálfum að kenna. Það þurfti ekki nema eitt fyllerí á laugardaginn til að höggva skarð í fínan árangur síðustu viku. Sunnudagurinn var náttúrulega, eins og gengur og gerist eftir djömm, frekar sóðalegur og var étið pizzu , étið snakk, drukkið gos, étið ís og tekið allan pakkann á þetta. Í gær var maginn náttúrulega á fleygiferð og maður ekki alveg í góðu ásigkomulagi og þegar maður kom heim eftir vinnu þá datt maður í einhvern sukkfíling aftur. Það þarf ekki nema lélega ástæðu eins og "Það er nú einu sinni bolludagur" að maður hendist út í bíl, keyri alla leið í Krónuna til þess eins að tékka hvort að það séu ekki ennþá til bollur sem maður getur háma í sig að kvöldi til. Þær voru hinsvegar ekki til þannig að ég réttlætti það með poppi,gosi og ís . . meikar sens er það ekki ?

Nei það meikar nefnilega engan bölvaðan "sens". Ég lofaði samt sjálfum mér (og Jóhönnu) að detta ekki í eitthvað þunglyndi og samviskubit út af þessum tveimur dögum , og það er í raun ótrúlegt hvað tveir slæmir dagar geta gert manni mikinn skaða eftir fjölmarga daga og vikur af ótrúlegum aga og góðu mataræði.

Mér finnst síðustu bloggfærslur hafa einkennst af hæðum og lægðum hjá mér og ég er kominn með leið á því að vera að játa það fyrir ykkur sem lesið þetta blogg, hversu upp og ofan þetta gengur hjá mér , því ég vil fara að koma mér almennilega af stað. Það er auðvitað viss árangur að vera búinn að skafa af sér einhver 25-26 kg , en ég þarf bara að sýna miklu meiri árangur til þess að ég geti verið tilbúinn að á einhverjum sáttum við sjálfan mig, líkamlega og andlega.

Ég vonast til þess að í næsta bloggi verð ég með jákvæðnina skrúfaða á hæsta styrkleika.

Kv. Binni

Sunday, February 12, 2012

Hollustan heldur áfram !

Hollustan heldur áfram.

Eftir viðburðaríka síðastliðna viku, þar sem óhollustupúkinn náði dauðagripi á líkama og sál og henti mér í lazy-boy stólinn og skipaði mér að éta og vera latur, þá hafa síðustu fjórir dagar verið mun skárri.

Líkaminn er byrjaður að taka aftur við sér, hollustan er byrjuð að kikka inn , maginn er ekki jafn útþembdur, vítamínin og lýsið öskra á mig á morgnana úr ísskápnum og gleðin og hamingjan er í fyrirrúmi.

Þessa helgina er ég að vinna 12 tíma vaktir á laugardegi og sunnudegi, sem getur verið ansi átakanlegt fyrir mig , þar sem ég sit í stól fyrir framan tölvuskjái í 24 tíma yfir helgina og lítil sem engin hreyfing á sér stað. Þó er ég duglegur við að standa upp, labba aðeins um og taka nokkrar Hlé-æfingar fyrir líkamann, því annars myndi ég fara yfirum.

Það skiptir alveg svakalega miklu máli að vera vel undirbúinn fyrir svona helgarvakt, enda væri það svakalega auðveld leið að panta sér bara pizzur alla helgina og éta sukkfæði. En ég kom vel undirbúinn fyrir þessa helgi og ég var að pæla í að gefa hollráð fyrir svona helgarvaktir, því ég þekki marga sem eru akkúrat í vaktavinnu.

Það sem ég geri á föstudegi er að steikja 4 kjúklingabringur og hafa þær svo bara tilbúnar inn í kæli. Ég tek með mér slatta af grænmeti (gulrætur,paprika,brokkolí,blómkál,tómatar), hrísgrjón, jógúrtsósu, skyr.is, bláber, granóla og ávexti. Þetta allt saman nær að ná utan um alla matartímana hjá mér.

Ég mæti í vinnu klukkan 8 að morgni til , og klukkan 9 fæ ég mér Skyr með granóla og bláberjum. Í hádegismatinn klukkan 12 fæ ég mér svo kannski Kjúkling, fersk grænmeti, hrísgrjón og jógúrtsósu. Klukkan 15 fæ ég mér ávöxt eða skyr og klukkan 18 fæ ég mér kjúklingasalat og nota jógúrtsósuna sem dressingu. Og vegna þess að ég steikti fjórar kjúklingabringur, þá á ég fyrir matnum daginn eftir og get tekið sömu rútínu, eða allavega samskonar rútínu í matartímunum. Með þessu drekk ég að sjálfsögðu nóg af vatni og þið takið eftir því að ég borða ávallt á þriggja tíma fresti - Það er þumalputtaregla númer 1 í mínum aðferðum við hollan lífsstíl.

Að taka svona uppbyggjandi helgi í vinnunni með mataræðið hressir,bætir og kætir og maður getur komið heim til sín rúmlega átta á sunnudagskvöldi og verið sáttur með sjálfan sig. Málið er nefnilega að ég vinn þannig vinnu að ef maður er að vinna um helgar eða á frídögum , þá borgar vinnan matinn fyrir mann. Þ.e.a.s , við megum panta okkur það sem við viljum , tökum kvittanir og vinnan borgar manni tilbaka næsta virka dag. Þetta er þægilegt kerfi .... enda hefur maður tekið allsvakalegar sukkhelgar. Ég get t.d nefnt ykkur sem dæmi þegar ég tók akkúrat svona dagvaktahelgavakt:

Á laugardeginum pantaði maður sér Dominos upp úr hádegi, allavega eina 16" pizzu, 16" hvítlauksbrauð, Brauðstangir og 2L Coke ... þetta er svona týpíski skammturinn. Þegar ég er í stuði þá á ég frekar auðvelt með að klára þetta allt saman áður en ég fer heim klukkan 8 um kvöldið . . oftast skil ég brauðstangirnar eftir svo ég geti nú örugglega troðið pizzunni og hvítlauksbrauðinu í fésið á mér. Svo er kannski Sunnudagurinn mjög svipaður ... þannig að maður VAR að innbyrða margfaldan kaloríuskammt á einni helgi og svo alla vikuna eftir var maður með samviskubit eftir þetta.

En núna er allt önnur tíð, ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því hvað ég get troðið miklum mat ofan í mig , þetta er alls ekkert leyndarmál ... ég veit alveg hvernig ég virka og ég veit hvernig ég get stoppað sjálfan mig af : HER-AGI í mataræðinu ... ekkert nema agi.

Markmið:

Ég steig á vigtina í morgun og ég er búinn að bæta á mig rúmlega 2,5 kg frá því 23.des .. sem er í sjálfu sér ekkert svo slæmt , þar sem ég er býsna fljótur að losa mig við aukakílóin. Það er árshátíð hjá vinnunni þann 17.mars og frá og með deginum í dag ætla ég að losa mig við 4 kg , ég gæti gert háleitari markmið en það , en ég held mig við skynsemina að þessu sinni. :)

Kv. Binni

Thursday, February 9, 2012

Játningar Matarfíkils...

Ég ætla að vera svolítið á einlægu tónunum í þessu bloggi.

Síðustu vikur hafa verið erfiðar , mjög erfiðar. Þetta byrjar náttúrulega allt saman með jólunum. Eftir margra vikna púl og erfiði við að taka mataræðið í gegn og hreyfa sig , koma nokkrir dagar um hátíðarnar þar sem maður leyfir sér að borða það sem maður vill, hvort sem það er sælgæti, góður matur eða vín með matnum. Maður hélt að þetta væri ekki að skipta svo miklu máli, því maður ætlaði sér aldeilis að komast á ról eftir þetta. En þá skullu áramótin á með öllu sínu veldi, áfengi og sukk. Nújæja .... núna voru allavega 13 dagar í að maður færi út til Manchester.

Þessir 13 dagar voru öflugir, mataræðið var í flottu lagi og maður hreyfði sig með samviskusamlega. En þá kom að ferðinni. Auðvitað leyfði maður sér það sem maður vildi þarna úti í 4 daga, drakk eins mikið áfengi og maður vildi og sukkaði í mataræðinu.

Eftir að maður kom heim frá Manchester þá hefur leiðin eiginlega legið niður í við í öllu saman. Það hefur verið erfiðara og erfiðara að halda sig við stíft mataræði og hreyfingu og svo kom sumarbústaðarferð þarna inn á milli þar sem maður fékk sér miklu óhollustu og lá í pottinum , þambandi á áfengi.

Þessi vika hefur verið algjört helvíti í raun og veru. Jóhanna er búin að liggja í flensu og ég hef verið frekar slappur sjálfur, og einhvern veginn andskotast maður til þess að finna sér ástæður til þess að "fá sér ís" eða "Kaupa sér snakk". Núna frá mánudegi til miðvikudags hef ég t.d verið að fá mér hálfan líter af ís, snakkpoka og nærri 2L af Coke-i DAGLEGA. Í gær var torgað nánast heillu 16" Meat and Cheese pizzu frá Dominos, "2L af Coke og Lay´s Snakkpoki ... með bestu lyst. Í gærkvöldi var ég líka kominn í brjálæðislegt mikið tremma yfir þessu, enda ekkert eðlilegt hversu mikið magn af óhollustu maður hefur verið að innbyrða í þessari viku.

Ég hef alltaf verið duglegur að segja það að það sé ekkert mál að hætta óhollustu og sykri og hvaðeina... en það hefur verið hreinasta lygi. Ég er matar og sykurfíkill... og það er bara það einfalt. Um leið og ég dett út af beinu leiðinni og stelst til þess að fá mér Pizzu eða snakk eða gos, þá er ég dottinn af vagninum. Það má líkja þessu við Alkóhólisma ... ég tek svona "túra" þar sem ég er bara hakkandi í mig mat og nammi og gosi og hugsa ekkert um sjálfan mig. Svo eftir nokkra daga er ég kominn í sykur-þynnku og verð alveg ferlegur í skapinu.

Ég er nú svosem ekki þekktur fyrir af vera skapmikill og þunglyndur maður, en þegar ég er búinn að vera í svona mikilli óhollustu í nokkra daga, þá fer það rosalega mikið í skapið á mér. Ég finn fyrir uppgjöf í öllum líkamanum og allri sálinni og hugurinn segir "Til hvers að reyna að halda sér í einhverju formi ... ég er hvort eð er feitur andlega... því ekki að vera það líkamlega líka??" - Þessar hugsanir eru hættulegar fyrir mig og koma upp oft, en ekki ef ég næ að halda mér á beinu brautinni í mataræðinu . . þá næ ég að halda þessu í skefjum og einbeita mér , enda þarf ég 110% einbeitningu ef ég á að halda mér að rækta líkamann og sálina.

Það þarf ekki nema eitt lítið "Æii .. það er nú í lagi þótt þú fáir þér smá kökur" frá einhverjum til þess að trufla mig í þessu og sem betur fer hefur flest fólk skilning á þessu, en það getur farið í mínar fínustu taugar þegar fólk hefur engan skilning á þessu og þykist vita betur og segir við mann að maður hafi nú gott af því að fá sér "Hitt og þetta". En málið er að ég get ekki verið að fá mér "Hitt og þetta" eða hvaða óhollustu sem er, því ég er með það mikla fíkn að þetta er eins og að bjóða alkóhólista upp á einn sjúss , því hann hefur nú alveg gott af því og það skaðar hann nú ekkert.

Þannig að ég vil endilega biðja það fólk sem ég umgengst og hitti , að gefa þessu skilning og reyna að skilja hvers vegna ég verð alltaf að taka 110% á því í mataræðinu hjá mér, því minnsta "brot" getur orsakað keðjuverkun í óhollustu og það fer beint í skapið á mér og mér líður illa.

Ég þurfti bara aðeins að pústa í þessu bloggi og koma þessu frá mér, enda ætla ég að taka allsvakalega á því næstu vikurnar.

Wish me luck.