Sunday, February 12, 2012

Hollustan heldur áfram !

Hollustan heldur áfram.

Eftir viðburðaríka síðastliðna viku, þar sem óhollustupúkinn náði dauðagripi á líkama og sál og henti mér í lazy-boy stólinn og skipaði mér að éta og vera latur, þá hafa síðustu fjórir dagar verið mun skárri.

Líkaminn er byrjaður að taka aftur við sér, hollustan er byrjuð að kikka inn , maginn er ekki jafn útþembdur, vítamínin og lýsið öskra á mig á morgnana úr ísskápnum og gleðin og hamingjan er í fyrirrúmi.

Þessa helgina er ég að vinna 12 tíma vaktir á laugardegi og sunnudegi, sem getur verið ansi átakanlegt fyrir mig , þar sem ég sit í stól fyrir framan tölvuskjái í 24 tíma yfir helgina og lítil sem engin hreyfing á sér stað. Þó er ég duglegur við að standa upp, labba aðeins um og taka nokkrar Hlé-æfingar fyrir líkamann, því annars myndi ég fara yfirum.

Það skiptir alveg svakalega miklu máli að vera vel undirbúinn fyrir svona helgarvakt, enda væri það svakalega auðveld leið að panta sér bara pizzur alla helgina og éta sukkfæði. En ég kom vel undirbúinn fyrir þessa helgi og ég var að pæla í að gefa hollráð fyrir svona helgarvaktir, því ég þekki marga sem eru akkúrat í vaktavinnu.

Það sem ég geri á föstudegi er að steikja 4 kjúklingabringur og hafa þær svo bara tilbúnar inn í kæli. Ég tek með mér slatta af grænmeti (gulrætur,paprika,brokkolí,blómkál,tómatar), hrísgrjón, jógúrtsósu, skyr.is, bláber, granóla og ávexti. Þetta allt saman nær að ná utan um alla matartímana hjá mér.

Ég mæti í vinnu klukkan 8 að morgni til , og klukkan 9 fæ ég mér Skyr með granóla og bláberjum. Í hádegismatinn klukkan 12 fæ ég mér svo kannski Kjúkling, fersk grænmeti, hrísgrjón og jógúrtsósu. Klukkan 15 fæ ég mér ávöxt eða skyr og klukkan 18 fæ ég mér kjúklingasalat og nota jógúrtsósuna sem dressingu. Og vegna þess að ég steikti fjórar kjúklingabringur, þá á ég fyrir matnum daginn eftir og get tekið sömu rútínu, eða allavega samskonar rútínu í matartímunum. Með þessu drekk ég að sjálfsögðu nóg af vatni og þið takið eftir því að ég borða ávallt á þriggja tíma fresti - Það er þumalputtaregla númer 1 í mínum aðferðum við hollan lífsstíl.

Að taka svona uppbyggjandi helgi í vinnunni með mataræðið hressir,bætir og kætir og maður getur komið heim til sín rúmlega átta á sunnudagskvöldi og verið sáttur með sjálfan sig. Málið er nefnilega að ég vinn þannig vinnu að ef maður er að vinna um helgar eða á frídögum , þá borgar vinnan matinn fyrir mann. Þ.e.a.s , við megum panta okkur það sem við viljum , tökum kvittanir og vinnan borgar manni tilbaka næsta virka dag. Þetta er þægilegt kerfi .... enda hefur maður tekið allsvakalegar sukkhelgar. Ég get t.d nefnt ykkur sem dæmi þegar ég tók akkúrat svona dagvaktahelgavakt:

Á laugardeginum pantaði maður sér Dominos upp úr hádegi, allavega eina 16" pizzu, 16" hvítlauksbrauð, Brauðstangir og 2L Coke ... þetta er svona týpíski skammturinn. Þegar ég er í stuði þá á ég frekar auðvelt með að klára þetta allt saman áður en ég fer heim klukkan 8 um kvöldið . . oftast skil ég brauðstangirnar eftir svo ég geti nú örugglega troðið pizzunni og hvítlauksbrauðinu í fésið á mér. Svo er kannski Sunnudagurinn mjög svipaður ... þannig að maður VAR að innbyrða margfaldan kaloríuskammt á einni helgi og svo alla vikuna eftir var maður með samviskubit eftir þetta.

En núna er allt önnur tíð, ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því hvað ég get troðið miklum mat ofan í mig , þetta er alls ekkert leyndarmál ... ég veit alveg hvernig ég virka og ég veit hvernig ég get stoppað sjálfan mig af : HER-AGI í mataræðinu ... ekkert nema agi.

Markmið:

Ég steig á vigtina í morgun og ég er búinn að bæta á mig rúmlega 2,5 kg frá því 23.des .. sem er í sjálfu sér ekkert svo slæmt , þar sem ég er býsna fljótur að losa mig við aukakílóin. Það er árshátíð hjá vinnunni þann 17.mars og frá og með deginum í dag ætla ég að losa mig við 4 kg , ég gæti gert háleitari markmið en það , en ég held mig við skynsemina að þessu sinni. :)

Kv. Binni

No comments:

Post a Comment