Monday, February 27, 2012

Mars > Febrúar

Það gleður mitt litla hjarta þegar snjóinn tekur að leysa og slabbið og hálkan kveðja göngustígana. Að fá smávegis hlýju og auða göngustíga og götur hjálpar mér alltaf að drattast út úr húsi og labba þessa 4 kílómetra á dag, sem ég hef verið að gera undanfarna mánuði út af brjósklosinu í bakinu á mér. Þegar snjórinn kom, þá fann ég alltaf ástæður til þess að sleppa því að fara út að ganga, sem er heimskulegt, því þessir göngutúrar eru það langbesta sem ég get gert fyrir bakið á mér. Maður á auðvitað ekki að láta einhvern snjó stöðva sig , enda er þetta víst bara einn líkami sem við fáum og ég ætla mér ekki að vera með ónýtt bak að detta í 28.aldursárið . . það kemur bara ekki til greina.

En síðasta vika var alveg ágæt, miðað við undanfarnar vikur. Mataræðið var tiltörulega rétt og hollt og ég náði að léttast um nokkur hundruð grömm á vigtunardeginum á föstudaginn , sem er bara besta mál , enda er ég ekki að gera mér neinar vonir um að missa helling af kílóum í viðbót , enda yrði það sennilega ekkert fallegt.

Ég hef örugglega ekkert verið að setja inn þyngdina á mér hérna inn, að ég held. Þegar ég byrjaði að taka mig á þann 28.ágúst þá mældist ég 121,1 kg , sem er náttúrulega bara alveg fáránlegt. Ég hef þó mest verið í 126,5 kg í kringum 2008 og þá náði ég að léttast niður í 92 kg þegar ég var hvað léttastur og miðað við myndir sem maður hefur skoðað frá þeim tíma, þá virðist 92 kg vera aðeins of lítið. Í dag er í kringum 95 kílóin og er mjög sáttur við þá tölu og því er eins gott að ég tek lítið sem ekkert mark á BMI-stuðlinum.

BMI-Stuðull :

Líkamsþyngdarstuðullinn fæst með því að deila þyngdinni í kílóum með hæðinni í metrum í öðru veldi. Þá fæst stuðull sem hægt er að bera saman við ákveðin viðmiðunargildi og meta þannig holdafarið.

Viðmiðunargildi kjörþyngdar , ofþyngdar og offitu.

Kjörþyngd: BMI 18,5 - 25
Ofþyngd: BMI 25 - 30
Offita: BMI yfir 30


Ef við reiknum hæðina á mér (188cm) og þyngdina (95kg) þá fáum við út 26,9 , sem þýðir samkvæmt þessu að ég sé í ofþyngd. Til þess að geta verið allavegana í kjörþyngd yrði ég að vera í kringum 85-87 kg , sem þýðir að ég yrði að losa mig við 8-10 kg í viðbót .. sem meikar engan sens því ég yrði bara horaður með þessu áframhaldi. Þess vegna er gott að hafa það til hliðsjónar að BMI getur ekki reiknað með beinaþyngd, líkamsbyggingu eða öðru. Þetta er sjálfsagt ágætis stuðull til þess að reikna eitthvað gróflega út ... en ég læt sko ekki neinn BMI stuðul segja mér að ég sé í ofþyngd.

Langbesta leiðin til þess að mæla sig á einhvern hátt, er auðvitað að taka málin á sér með málbandi og fylgjast með á vigtinni. Ég mæli með því að fólk prófi að fara allavega í fituprósent-mæingu hjá einhverjum sem kann á það, fyrir komandi átök og láti mæla sig reglulega. Ég persónulega þyrfti sjálfur að gera það við sjálfan mig en ekki alltaf bara horfa á tölurnar á vigtinni.

En ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í dag - Næturvaktavika hjá mér þessa vikuna , þannig að sólarhringurinn verður öfugur sem og matartímarnir ... krefjandi en skemmtilegt engu að síður.

Kv. Binni

No comments:

Post a Comment