Saturday, April 7, 2012

Söngkeppni Framhaldsskólanna


Söngkeppni Framhaldsskólanna er keppni sem á ávallt sérstakan stað í hjarta mínu, aðallega vegna þess í henni tók ég mín fyrstu spor í tónlistinni þegar ég fékk að flytja lag eftir Andra Má fyrir Hússtjórnarskólann á Hallormsstað árið 2003. Einnig tók ég þátt árin 2005 og 2006 í aðalkeppninni fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra með ágætis árangri.

Vegna þess að þessi keppni er mér svo kærkomin, þá þykir mér miður hvernig hún er orðin.


Fyrirkomulagið er semsagt þannig að núna senda 32 skólar inn myndbönd á mbl.is og fólk getur skoðað myndböndin þar og sent svo sms í númerið sem að laginu er gefið. Skipuð er sérstök dómnefnd til að vega upp á móti sms-kosningu og komast einungis 12 lög áfram í beina útsendingu á RÚV sem verður svo síðar í mánuðinum.

Í fyrsta lagi þykir mér það mjög furðulegt að leyfa ekki öllum að stíga á stokk í beinni útsendingu á RÚV. Ein mesta upplifunin við þetta er að fá að koma fram fyrir framan fullt af áhorfendum og í beinni útsendingu á RÚV þar sem fjölskyldan getur fylgst með manni í gegnum sjónvarpið og hvatt mann áfram. Einnig er ein mesta spennan við þetta að þetta er allt í beinni útsendingu og allt getur gerst, í staðinn fyrir að í þessum myndböndum sem birtast á mbl.is , þá er hægt að klippa allt til og frá og hægt að taka eins margar tökur og hægt er ... það gerir þetta bara leiðinlegt og lítið spennandi.

Í öðru lagi , þá eru skólar utan af landsbyggðinni aldrei að fara að komast áfram í þessa 12 skóla söngkeppni á RÚV, einfaldlega því að þeir eru ekki nógu stórir. Ég hef enga trú á því að dómnefndin nái að vega það mikið upp á móti risastóru skólunum, þannig að 3-400 manna skólar í litlum bæjarfélögum eiga á harðan að sækja í þessari vinsældarkosningu.

Í þriðja lagi finnst mér náttúrulega að það ætti að vera dómnefnd sem velur í fyrstu þrjú sætin, og allir skólarnir taka þátt á sama kvöldinu , og sérstök sms-verðlaun verða fyrir vinsælasta atriðið. Mér finnst alltof mikið verið að gefa valdið til fólksins í landinu, sem er ekkert endilega að reyna að veita þeim sem eru með besta SÖNGinn verðlaun, enda er þetta bara vinsældarkosning. Ég treysti fagaðilum til þess að velja bestu SÖNGatriðin og ég treysti þjóðinni til þess að velja vinsælasta atriðið.

Ég er mjög stoltur af FNV að hafa sagt sig úr SÍF, enda hef ég heyrt að undirbúningurinn hafi verið hreint hörmulegur og keppendum sagt að lögin mættu bara vera 2 mín að lengd, en síðan var sú regla bara tekin af og þeir sem voru búnir að hafa fyrir því að gera íslenskan texta við erlent lag ... þeir geta bara annað hvort verið stoltir af sínum íslenska texta eða verið hundfúlir því það má víst syngja lögin á ensku í ár. Eitt það besta við þessa keppni er akkúrat að hún hefur verið á íslensku. Það er gaman að sjá hvernig krakkarnir spreyta sig á því að þýða ensk lög yfir á íslensku. Mér þykir þetta stefna í eina allsherjar karokíkeppni.
Ég er kannski voðalega gamaldags í þessu, en mér þykir keppnin vera að taka hrikalega mörg skref niður á við.

Ég vona svo sannarlega að litlu skólarnir komist áfram í þessa "frábæru" 12 laga keppni og vonandi hafði ég rangt fyrir mér varðandi það að þeir eiga engan séns.

Áfram litlu skólarnir !!!

No comments:

Post a Comment