Thursday, January 26, 2012

Snjó-hugvekja !!


Það er vetur - Þar hafið þið það !!!

Það þarf svosem ekkert að koma okkur á óvart að snjórinn og færðin eru að gera all geðveika, enda hefur ekki snjóað svona mikið í Höfuðborginni í mörg ár , ég hef allavega ekki lent í svona "miklum" snjó hérna fyrir sunnan síðan að ég flutti hingað fyrir 5 og hálfu ári síðan.

Mig langar einfaldlega til þess að biðja fólk, alla sem hafa kraft og þol og lífsgleði og hamingju ... bara allann pakkann , að hendast út fyrir eða eftir vinnu/skóla/hvað sem þið eruð að gera og taka upp skóflur og moka stæðin og göturnar hjá ykkur. Sjálfur hef ég verið duglegur við að moka bílastæðin í Kjarrhólmanum, og auðvitað ekki bara fyrir bílinn minn heldur fyrir aðra líka - Það væri alveg magnað ef að fleiri myndu taka sig til og taka upp skóflurnar og hjálpast að við að moka bílastæðin, því þau eru alltaf erfiðust á morgnana ... allavega hérna í Kjarrhólmanum í Kópavoginum. Fólk þarf að fara að nota heilann aðeins meira svona í morgunsárið og ekki bara setja í bakkgír og vaða í skafla ... Vakna hálftíma fyrr , fá sér kaffi og vaða svo í skaflana og byrja að moka - Þá er maður kominn með work-out dagsins , blóðið byrjað að renna vel um líkamann og maður vaknar svo sannarlega við þetta.

Mæli með því að fólk fari að moka, með bros á vör og hjálpi öðrum sem eru í vanda staddir í umferðinni ... þetta er ekkert grín fyrir suma.

Kv. Brosandi Binni með skóflu í hendi.


Monday, January 23, 2012

Hreyfing... lyfta... koma svoooo !!!


Jæja - Helgin sem leið fór nú ekki alveg eins og hún átti að fara í mataræðinu. Við Jóhanna misstum okkur einfaldlega í nammisukkinu og vorum í raun með nammidag bæði á laugardaginn og sunnudaginn . . þannig að maður er ekki alveg sáttur við sjálfan sig eftir svona helgi.

En það þýðir lítið að vera í einhverju svekkelsi út í sjálfan sig - Það eina sem að virkar er að drattast til að taka á þessum veikleika með jafnaðargeði og pressa á sjálfan sig til þess að gera enn betur á komandi vikum... sem við ætlum akkúrat að gera.

Í fyrsta lagi þá er ég á dagvöktum þessa vikuna, og því er tilvalið fyrir mig að taka íþróttafötin og skóna með , því ég er með líkamsræktaraðstöðu hérna í vinnunni og get því farið klukkan fjögur eftir vinnu og púlað. Þar sem ég hef ekki farið í ræktina lengi , út af brjósklosinu, þá mun ég einungis byrja á léttu skokki á hlaupabretti , magaæfingum, bakæfingum og léttum lyftingum. Ég er með program á gamla brettinu hérna, þar sem ég tek 12 mínútur í senn, hröð ganga í 1 mín í senn og skokk í 1 mín, skiptist á semsagt í 12 mínútur. Ég tek þetta tvisvar-þrisvar sinnum, eftir því hvað ég endist lengi. Eftir það þá er það bara dýna á gólfið að taka magaæfingar og inn á milli fer ég og tek bekkpressu, hnébeygjur og lyfti handlóðum. Ég reyni að vera í kringum klukkutíma í salnum að púla og svitna, en hef ekki miklar áhyggjur til að byrja með , enda þarf ég minn tíma til að koma mér í gang.

Í öðru lagi þá er ég (og Jóhanna) að fara að hætta þessum helvítis reykingum. Við keyptum okkur bæði karton áður en við fórum til Englands og ákváðum að það yrðu síðustu sígaretturnar okkar. Ég sagði alltaf að þegar pakkinn yrði kominn yfir 1000 kallinn þá myndi ég hætta þessu... sem ég ætla að standa við. Það þýðir líka að ég mun ekki fá mér sopa af áfengi á næstunni, þar sem þetta tvennt helst afskaplega vel í hendur... ætla ekki að falla á tæknilegum mistökum eins og áfengissulli. Maður ætti kannski ekki að vera að auglýsa þetta eitthvað mikið, því það hefur mistekist frekar oft að hætta þessum reykingum.... en ég er staðráðinn í þetta skiptið og núna skal maður hætta þessu !! Ég spara þá frekar peninginn af þessu og fer til útlanda... því miðað við hvað ég reyki (pakki á tveimur dögum) , þá er það í kringum 185 þús krónur á ári ... og svo reykir Jóhanna líka svipað , þannig að þetta er í kringum 370 þús krónur á ári sem fara í sígaretturnar ... það er hægt að fara í fína ferð til sólarlanda fyrir þann pening, og ég ætla líka að verðlauna okkur þannig í sumar, ÞEGAR(ekki ef) okkur hefur tekist þetta markmið okkar. HARKAN SEX og ekkert annað !!!

Mataræðið verður tekið hörðum höndum næstu vikurnar semsagt og þar sem það verður ekkert áfengi fyrr en á árshátíð RB þann 17.mars næstkomandi, þá vil ég biðjast fyrirfram afsökunar á engu félagslífi frá mér , ég vona bara að vinir og kunningjar skilji að þessi lífsstíll fellur bara ekki undir mikið af djammi og sukki. Sumir gætu spurt "En af fara bara edrú niður í bæ" - Það er alveg "valid" spurning, en málið er að ég skemmti mér ekki edrú niður í bæ, og undanfarið hef ég ekki skemmt mér vel í glasi heldur. Ég er að verða 28 ára gamall og hef ekki lengur þessa löngun til þess að vera að taka flest allar helgar í djamm. Bæði hef ég ekki tíma , peninga og orku í þetta líf lengur. Árið 2012 á líka að vera mjög skynsamlegt hjá mér og munu einhver djömm vera rosalega mikið "Spari" hjá mér.

Gangi mér vel og gangi ykkur vel :)

Kv. Binni



Friday, January 20, 2012

Smá pepp öpp !!! ... og uppskrift !!



Það getur verið drulluerfitt að koma sér í rútínu aftur eftir sukkið síðustu vikur - En ég er ákveðinn að halda áfram mínu striki og borða hollt og hreyfa mig af bestu getu , fann það alveg í Bretlandi hvað mér leið illa alltaf í öllum líkamanum á mataræðinu sem ég var á þar.

Ekkert nema bjartsýni og góðir tímar framundan - Læt ekki leiðindarveður og kulda slá mig út af laginu - Áfram Áfram !!!

Ég er að pæla í að henda inn uppskrift af frábærum kjúklingarétt sem mér tókst að galdra fram úr erminni, eftir að hafa notað kokteiltómata í krukku.

Kokteil-Kjúklingaréttur.

Sósan:

1 krukka af kokteiltómötum í olíu (nota sem bara helminginn af olíunni)
2 tómatar
Hálf rauð paprika
1 stöng sellerí
Salt og pipar
1 stykki Shallotlaukur.

Þetta er allt sett saman í blandara, skorið niður sem þarf , og blandað þangað til að sósan er orðin silkimjúk og fín.

Síðan er steikt á pönnu:

1 Kjúklingabringa , skorin í strimla eða bita
Hálf rauð paprika
1 laukur
2 tómatar
(annað grænmeti valfrjálst)

Þegar búið er að steikja þetta allt saman þá er sósunni hellt yfir og leyft að malla. Þetta er æðislegt með hrísgrjónum og jafnvel fersku salati :)

Njótið vel :)

Wednesday, January 18, 2012

Manchester England England....


Þessi mynd segir kannski allt sem segja þarf um þessa Manchester-ferð okkar um helgina. Þarna er ég með fjórfaldan hamborgara með beikoni og laukhringjum,franskar, stóran bjór og jarðaberjakokteil.

Ég er nú kannski ekki að segja að maður hafi verið á þessu fæði alla daga þarna úti, þessi máltíð er kannski sú ýktasta . . en maður leyfði sér allt. Maður fékk sér breskan mat, indverskan mat, kínverskan mat, ítalskan mat og Jóhanna náði jafnvel að plata mig einu sinni á McDonalds (sem var ógeðslegt eins og alltaf).

En þegar maður tekur einhverja 5 daga og leyfir sér allt sem maður vill , þá segir maginn og líkaminn líka bara STOPP stundum , maður var stundum helvíti slappur inn á milli. Svo til að kóróna allt pöntuðum við okkur Dominos pizzur þegar við komum heim til Íslands.

Svo þegar ég steig á vigtina í gærmorgun kom það í ljós að ég hafði náð að bæta á mig rúmum fjórum kílóum frá fimmtudegi til þriðjudags, sem verður að teljast ágætis árangur. Þetta kom mér svosem ekkert á óvart, enda er líkamsstarfssemin mín þannig, að ég er jafnfljótur að bæta á mig , eins og ég er að losa mig við þyngdina, þess vegna þarf ég alltaf að vera á tánum með það hvað ég borða.. það er bara þannig.

Næstu vikur fara svo í það að koma sér í gang almennilega eftir jólin, áramótin og England og taka hörkuna á þetta . . enda þarf maður að líta vel út í öllum þessum fötum sem maður keypti sér út í Manchester.

En nóg komið af át-bloggi .... Þetta verður heilsusamlegra næst.

Kv. Binni

Wednesday, January 11, 2012

Að léttast - Daglega rútínan !


Það sem skiptir máli , þegar maður er að losa sig við aukakílóin, er mataræðið. Ég myndi áætla að mataræðið sé svona 80% og hreyfing 20% , þannig eru allavega hlutföllin hjá mér. Gullna reglan er sú að borða á þriggja tíma fresti, skynsamlega skammta og ekki gúffa í sig stórum máltíðum. Maður á náttúrulega að reyna að dúndra í sig eins miklum ávöxtum og grænmeti og maður getur og auðvitað próteinum. Það getur verið árangursríkt að sneiða framhjá öllum kolvetnum, en í rauninni þarf maður kolvetni í líkamann og því ekki skynsamlegt að sneiða algjörlega framhjá þeim .. nema að þú sért í leiðinni í eitthvað fitness-program og þarft að helskafa þig.

Í þessari viku hefur matarprógramið mitt verið svohljóðandi:


Byrja á því að taka lýsi , járn og fjölvítamín þegar ég vakna.

9:00 - Vanillu skyr.is með granóla úr Bónus, rúsínum og frosnum bláberjum
12:00 - Fiskisúpa sem inniheldur þorsk, sætar kartöflur og lauk
15:00 - Berja boozt úr síðasta bloggi
18:00 - Sama og morgunmaturinn.
21:00 - Ef ég er svangur þá hef ég fengið mér hrökkkexið frá Ágústu Johnson

Þetta er svosem ekki venjuleg rútína hjá mér, því oftast er ég með heitan mat bæði í hádeginu og á kvöldin , en þar sem maður er að fara til Englands á föstudaginn þar sem ég mun leyfa mér að sukka í nokkra daga, þá getur verið ágætt að taka heitan mat í hádeginu og léttan mat í kvöldmat.. það róar magann aðeins.


Þegar ég tók mig á árið 2008 og byrjaði að létta mig í fyrsta skipti þá var ég hins vegar að borða mun meira, því að bakið á mér var ekki jafn slæmt og það er núna, og þá var ég í ræktinni 5-6 sinnum í viku og körfubolti þar inn á milli. Þá varð ég að passa mig á því að innbyrgja nóg af kalóríum til að brennslan myndi skila sér almennilega. Ég ætla að pósta venjulegum degi hjá mér í mataræðinu þegar ég var að skila sem mestum árangri !


07:00 - All bran með Fjörmjólk og rúsínum, lýsi, vítamín, járn
10:00 - Próteinsjeik og ávöxtur
13:00 - Kjúklingabringa m/fersku grænmeti og hrísgrjón
16:00 - Vanillu skyr.is eða ávöxtur og próteinsjeik
19:00 - Sama og klukkan 13 , nema ég fékk mér stundum Lax í staðinn og minna af hrísgrjónum.
22:00 - Ávöxtur eða frosnir ávextir.

Próteinsjeikinn fékk ég mér venjulega eftir æfingar. Það er auðvitað hægt að svissa út hinu og þessu, en þetta virkaði fyrir mig og virkar ennþá fyrir mig og ég vona bara að fólk geti notað þessar upplýsingar ef það er að hugsa um að grennast og breyta um lífsstíl.

Munið að ég er ekkert að alhæfa neitt og ég reyni að tala sem minnst út um rassgatið á mér.

Kv.Binni

Fæða dagsins: Frosin bláber.

Monday, January 9, 2012

Boozt Boozt Boozt !!


Það getur verið smávegis höfuðverkur að finna sér eitthvað millimál sem er næringarríkt og sömuleiðis gott á bragðið. Ávaxta-boozt geta verið rosalega góð leið til þess að nærast á á milli hádegis og kvöldverðs, jafnvel sem kvöldsnakk eða máltíð eftir morgunmat. . semsagt sem millimáltíð. Ég hef prófað mig áfram á alls konar boozt-um, en grunnurinn er ávallt frosin jarðarber og Vanillu skyr.is hjá mér - Ég mæli með því að fólk smakki sig áfram og prófi eitthvað nýtt þangað til að það finnur sér "hina fullkomnu blöndu". Ég læt fylgja með eina góða boozt-blöndu sem ég dúndraði saman í dag ... ég læt engar sérstakar mælieiningar fylgja með , maður blandar bara þeim hlutföllum sem manni langar.



Berja-Boozt-Binna.

2/4 Frosin jarðarber
1/4 Frosnir bananar
1/4 Frosinn ananas
Smávegis af Goji-Berjum
Vanillu Skyr.is
Skvetta af trönuberjasafa

Þessu er öllu saman hent í blandara og blandað þangað til að þetta er orðið að góðri blöndu. Ef að blandarinn þolir ekki öll þessi frosnu ber, þá er góð leið að þíða berin fyrst, og ef maður vill þykkja þetta eitthvað þá getur maður látið ísmola saman við þegar þetta er að blandast, einn í einu, þangað til að blandar er orðin að meira "krapi"

Ég mæli einnig með bláberjum og öllum þeim frosnu ávöxtum sem þið komist í :)

Sunday, January 8, 2012

Að gera vel við sig !

Þrátt fyrir alla lifnaðarhætti hollustulífsins , þá er ég ennþá mikill matgæðingur. Ég elska mat og hef sérlega mikla ástríðu í því að elda góðan mat. Þess vegna reyni ég að gera vel við okkur Jóhönnu um helgar og reyni að elda góðan mat. Ég fann um daginn eina auðveldustu uppskrift af rauðvínssósu á netinu og ég verð að segja að þetta er orðin uppáhalds sósan mín ... jafnvel betri en sósan á Jensen´s Böfhus , sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi þegar maður fer til Sverige eða DK.

Hérna er mín samsetning á yndislegum laugardagsmat og hvernig ég elda þetta allt saman.

Lambafillet með ofnbökuðum kartöflum, steiktu grænmeti og rauðvínssósu.

Ég reikna með uppskrift fyrir 2 þannig að ég byrja á því að taka eina sæta kartöflu og 3-4 venjulegar kartöflur. Sker þær í hæfilega þykkar sneiðar og legg í bleyti í smá stund. Tek þær síðan úr vatninu og set á ofnplötu með bökunarpappír undir. Skvetti smá ólífuolíu á þær og set inn í ofninn sem ég stilli á 180 gráður. Þær þurfa alveg góðan klukkutíma í ofni, ef ekki lengur. Það getur verið gott að láta bara venjulega kartöflurnar fyrst og henda svo inn sætu kartöflunum eftir svona korter , því þær þurfa styttri tíma inn í ofni.

Á meðan kartöflurnar eru að krauma , þá tekur maður lambafillet og "lokar" þeim á sjóðheitri pönnu með smá olíu. Loka öllum hliðum með því að steikja þær í 1-2 mínútur á hliðunum. Krydda með salti og pipar og setja þær í eldfast mót - Þær þurfa að vera svona hálftíma - 45 mínútur, fer eiginlega allt eftir þykkt kjötsins og einnig eftir því hvernig þið viljið kjötið ykkar. Ég miða út frá Medium-Rare , en gott er að eiga kjöthitamæli til þess að fylgjast með steikingunni. Reynið að tímasetja það hvenær þið látið inn kjötið , miðað við kartöflurnar , svo allt sé tilbúið á svipuðum tíma.

Rauðvínssósan:

3 dl vatn
2 kjötkraftsteningar
2 dl rauðvín
30 gr smjör
6 shallot-laukar
salt og pipar
olía
Smjörbolla til að þykkja sósuna.
Sósulitur.

Aðferð:
1. Saxið niður laukana mjög smátt niður og steikið létt í olíu
2. Hellið rauðvíninu saman við og leyfið að sjóða niður um helming , það gæti tekið um 5-7 mínútur
3. Bætið þá við vatninu og teningunum og smjörinu og hrærið vel þangað til allt er búið að leysast upp. Setjið salt og pipar og smakkið til og sósulitinn til að fá fallegan lit á sósuna. Til þess að þykkja sósuna , þá er fínt að hræra saman bráðnu smjöri og hveiti/spelti og hræra svo út í.
4. Leyfið sósunni að sjóða síðan á vægum hita í smá stund.

Með þessu öllu saman er svo gott að steikja grænmeti á pönnu og er það náttúrulega eins auðvelt og það hljómar. Við skerum niður sveppi, rauða papriku og rauðlauk. Steikjum síðan á pönnu og kryddum aðeins með salti og pipar og jafnvel einhverjum kryddjurtum eins og timjan, rósmarín eða einhverju góðu grænu kryddi. Steikt þangað til að grænmetið er orðið fallega gulllitað og girnilegt.

Núna ætti allt "Preppið" að vera tilbúið og þá er bara að tímasetja sig vel með allt saman. Kjötið og kartöflurnar eru náttúrulega það sem þarf einna helst að vera á sama tíma tilbúið, sósuna má gera á undan og hita síðan upp , og grænmetið tekur minnsta tímann.

Ekta laugardagsmatur og alls ekki mikil fyrirhöfn og kostnaður "hæfilega" mikill.

Njótið vel :)