Wednesday, November 26, 2014

4 vikur í jólin !!!!


Nú fer alveg að styttast í það að ég ná aftur (enn og aftur kannski...) í tveggja stafa tölu, og einnig fer ég að nálgast það að vera búinn að missa 20 kg frá 1.september, sem er bara gott og blessað en það er helvíti langur vegur eftir. Því á einhverjum tímapunkti kemur sá tími þar sem maður er orðinn sáttur við sína þyngd og sitt form og þá tekur erfiðasta baráttan við.

Ég er heppinn að mörgu leyti þegar kemur að því að tækla af mér fitu og þyngd, því að ég er með hraða brennslu og því er þetta frekar fljótt að detta af mér ... en það sem er svo erfitt er það að ég er nákvæmlega jafn fljótur að bæta allt á mig aftur, ég þarf bara að detta í það ástand. .. því þetta er allt saman andlegt og sálrænt ástand þessi fíkn í sykur og mat hjá mér.

Sumir fussumsvei-a yfir því að ég afþakka "BARA smávegis bita" af hinu og þessu , en fólk ætti stundum að hugsa þetta þannig að fyrir mér er þetta nákvæmlega eins að bjóða fíkli "BARA smá" af kókaíni eða öðrum fíkniefnum ... svo rosalega sterk er þessi matar og sykurfíkn hjá mér. Þess vegna skiptir það mig alveg hrikalega miklu máli að ná að halda áfram á beinu brautinni , og ef ég leyfi mér eitthvað ,þá er það í afskaplega litlum mæli svo ég nái að hafa fullkomna stjórn á þessu.

Þannig að ég ætla ekki að biðjast fyrirfram afsökunar á því að ég afþakka eitthvað gotterí hjá öðrum , ég verð bara að útskýra fyrir fólki hvernig ástand mitt er og það verður bara að taka mér eins og ég er.

Þess vegna verða jólin svakalegur prófsteinn fyrir mig , þar sem freistingarnar verða út um allt , en ég er þó heppinn með það að ég hef aldrei verið mikið fyrir hinn hefbundna jólamat ..eins og hamborgarhrygg og hangikjöt, því að reykt kjöt hefur aldrei farið vel í mig og mér hefur aldrei fundist nein þörf á að sækja sérstaklega í það. Það er hinsvegar gosið og nammið sem hefur farið með mig í gegnum tíðina og er minn helsti óvinur. Ég er ekki bara að fara að fá mér eina karamellu úr Machintosh-inu , nei nei .... ég verð alavega að fá mér svona 10 mola í röð ef ég er byrjaður.

Við Jóhanna erum byrjuð að sanka að okkur uppskriftum að sykur og hveitilausu konfekti sem við ætlum að hafa með okkur um jólin , þannig að við verðum tilbúin með aðeins "hollari" kosti á kantinum ef að löngunin verður rosalega sterk. Ég er orðinn gríðarlega spenntur fyrir jólunum í ár , þar sem það stefnir í fyrstu jólin mín síðan að ég var 16 ára gamall þar sem ég er algjörlega í fríi á milli jóla og nýárs,  sem verður algjör unaður en um leið mjög erfitt þar sem þetta er mikið frí og því auðveldara að falla í einhverjar freistingar á meðan vinnan er ekki að halda manni uppteknum á meðan.

Þetta snýst allt um að undirbúa sig vel ... "If you fail to prepare, you prepare to fail" ... það mottó á afskaplega vel við um mig og mitt líf :)

Lifið heil og hafið það gott elsku vinir :)

Wednesday, November 12, 2014

Allt annað líf



Hérna eru tvær myndir af mér - Önnur er frá því þegar ég hélt upp á þrítugsafmælið mitt í maí og hin er nokkura daga gömul . . . töluverður munur á mér , enda að nálgast það að vera orðinn 17 kg léttari en ég var í allt sumar og fram í september.

Fólk spyr mig oft hvort maður sé í megrun eða hvort maður sé bara hættur að borða ... sem er náttúrulega algjör þvæla, því þótt ég sé að ná fínum árangri þá er ég alveg að borða og það töluvert mikið. Lykilatriðið í þessari lífsstílsbreytingu er það að ég varð hreinlega að hætta að borða sykur og hveiti og finna einhverjar aðrar lausnir þannig að ég gæti a.m.k notið þess að fá mér að borða.

Í stað þess að panta mér pizzur um helgar, þá útbúum við hjónin sérstakan pizzubotn sem inniheldur ekkert hveiti og engan sykur, og þar af leiðandi getum við leyft okkur að hafa eitthvað gott álegg á henni, eins og beikon og fleira. 

Gos er eitthvað sem ég sakna ekki , því ég hef aldrei verið neitt sérstaklega háður gosi , nema þá kannski Pepsi Max , en ég tók strax þá ákvörðun, sama þótt að Pepsi Max sé sykurlaust, að ég myndi losa mig við þann óþverra , því það voru einhver efni í því sem að lét mig vilja meira og meira og meira af Pepsi Max, þannig að ég hætti því algjörlega .... vatnið dugar mér ágætlega og fínt að grípa í Sítrónutopp eða Egils Kristal ef manni langar í einhverja tilbreytingu.

Ég reyni að halda í þá þumalputtareglu að borða alltaf á þriggja tíma fresti sem byrjar alveg á morgunmat og það heldur út daginn og fram að kvöldmat, venjulega 5 máltíðir á dag. Ég er nánast alveg hættur að fá mér eitthvað á kvöldin, eins og ég gerði oft, og hef átt mun betri svefnvenjur eftir að ég hætti að fá mér eitthvað að borða eftir kvöldmat , þó svo að ég reyni að fara aldrei svangur að sofa.

Ég fer a.m.k fjórum sinnum í ræktina á viku, en við hjónin pössum okkur á því að taka þetta skynsamlega og erum við því bara 30-40 mínútur að hámarki í ræktinni hverju sinni . Við erum ekki að fara þarna til að sprengja okkur alveg , en ekki heldur til þess að hanga og spjalla við fólk , við förum bara þarna með okkar markmið og erum að ná þeim ágætlega. Það þarf ekki alltaf að vera í ræktinni í heillangan tíma, ekki nema maður sé að stefna að einhverri vaxtarrækt eða einhverju slíku, sem við erum alls ekki að gera.

Ég reyni að borða alltaf mjög fjölhæft fæði, en ég hef alltaf haldið morgunmatnum mínum þó alveg eins og finnst mér hann vera langmikilvægasta máltíðin. Morgunmaturinn minn samanstendur af : Vanillu skyr.is - Rúsínum - All Bran - Frosnum bláberjum(eða öðrum berjum) .... þetta hittir alltaf beint í mark , þarna er ég að fá prótein, trefjar og kolvetni sem koma mér í gang yfir daginn. 

Hádegismaturinn minn er mjög mismunandi , fer voða mikið eftir því hvort að ég er að vinna eða hvort ég er heima. Ef ég er að vinna , þá reyni ég að panta mér fiskrétt frá veitingahúsum bæjarins sem bjóða upp á þannig þjónustu fyrir fyrirtæki hér á Króknum , en ef ég er heima þá er hádegismaturinn oftast þrjár hrökkbrauðssneiðar (með engu hveiti) með sinnepssósu, gúrku, tómutum, osti og eggjum (stundum kjúklingaáleggi) og nóg af vatni með (eins og alltaf). 

Um miðjan daginn ,eða á milli 15-16 fæ ég mér oftast banana , hef lært það að það er ótrúlega þægilegt að grípa í einn banana, hann hittir í mark alveg og nær að seðja hungrið alveg fram að kvöldmat.

Kvöldmaturinn er alltaf skemmtilegastur , því núna getur maður leyft sér ýmsilegt, en ekki bara hakkað í sig þurrar kjúklingabringur og grænmeti. Lykilatriðið er bara að gæta hófs og borða skynsamlega , en ekki troða sig út eins og maður hefur gert í gegnum tíðina. 

Í gær var t.d grýta sem að Jóhanna eldaði sem samanstendur bara af hakki, hrísgrjónum , fullt af grænmeti, tómatvörum , kryddum og vatni. Auðvelt og þægilegt og þrælgott. Svo erum við dugleg að elda kjúklingarétti og fiskrétti, fiskibollur, hakkrétti og kjötrétti ... og notum svo helgarnar til að dekra við okkur og eldum eitthvað gott , eins og hægeldaðan lambabóg, steikarsamlokur og fleira í þeim dúr... því maður verður að leyfa sér eitthvað aðeins þó svo að maður reyni að halda sér á beinu hollu brautinni ávallt.

Það sem hefur bjargað okkur alveg í þessu öllu saman, er það að við höfum verið dugleg að finna "aðrar lausnir" sem innihalda engan sykur og ekkert hveiti , eins og sykurlaus súkkulaði, hveitilaus brauð og annað í þeim dúr... þetta er bara allt annað líf fyrir okkur og við gætum ekki verið sáttari við það eins og þetta gengur ennþá.

En þetta er barátta ... þetta er ekki auðvelt og baráttan er upp á hvern einasta dag, því það er stutt í þessar gífurlegu fíkn sem matur er fyrir okkur . Og með jólin á næsta leyti , þá þurfum við að einbeita okkur alveg sérstaklega og undirbúa , því það verður ekkert sælgætisát og gosþamb á okkur hjónum ... ó nei.

Jólin eru sennilega efni í næsta blogg :)

Lifið heil .

kv. Binni