Tuesday, December 27, 2011

Stutt en góð jól.

Jólin komu og fóru. Ég hélt norður á fimmtudeginum 22.des og eftir stutt stopp á Blönduósi þá hélt ég "heim" á Krókinn þar sem ég sá aðallega um eldamennskuna alla þá daga sem ég var fyrir norðan, og þar á meðal eldamennskuna á aðfangadagskvöld .. sem sló svo sannarlega í gegn, þar sem foreldrar mínir fengu kærkomna hvíld frá því að elda og vaska upp. Á jóladag komu síðan Höski og Jóhanna og náðu í mig og fóru með mig á Blönduós þar sem ég gat eytt einum sólarhring með yndislegu tengdafjölskyldu minni með tilheyrandi jólaáti og spilum og gleði.

Það tekur sinn toll að borða "óhollt" í 4-5 daga og maður finnur vel fyrir því núna og því þýðir ekkert annað en að vera skynsamur þessa vikuna. En vikan endar þó á gamlárskvöldi þar sem við Jóhanna munum verða ógeðslega rómantísk og elda þríréttaða máltíð með víni, kokteilum, freyðivíni ... þannig að það verður enn ein sprengjan. En þetta eru bara nokkrir dagar á ári og því verður nú að leyfa sér eitthvað gotterí á þessum dögum. Maður má ekki taka sig alltof hátíðlega um hátíðarnar... eins kjánalega og það hljómar. Það er víst nógu mikill tími framundan til þess að lifa skynsömum lífsstíl :)

En það sem er framundan hjá okkur hjúunum í Kjarrhólmanum er auðvitað gamlársdagskvöld og aðeins 13 dögum eftir þá gleði þá höldum við ásamt móður minni og báðum systrum til Manchester England England , þar sem við ætlum að sjá flottasta knattspyrnuliðið á Englandi spila unaðslegan bolta á móti Bolton... og það verður jafnvel fengið sér nokkra kalda í leiðinni .. enda ekki á hverjum degi sem við fjölskyldan förum til útlanda saman.

Ég vil nota tækifærið svona rétt fyrir áramótin og biðja ykkur um að lifa heil og vera glöð á árinu 2012.

Kv. Binni

Tuesday, December 20, 2011

Jólahugvekja Brynjars !

Núna eru jólin á næsta leyti og eflaust eru þetta bestu dagar ársins hjá mörgum. Ég hef í gegnum tíðina verið alveg hrikalega mikill "Grinch" og ávallt fussumsveiað yfir jólunum og öllu því stússi. Til að mynda fannst mér alveg æðislegt þegar ég var að vinna einn á aðfangadagskvöld í vinnunni, hámandi í mig kjúklingabringu , grænmeti og ískalt vatn með. En þar sem ég hef fullorðnast og orðinn betri einstaklingur en fyrir tveimur árum , hef ég ákveðið að taka jólunum opnum örmum þetta árið og vera í ógeðslega góðu og skemmtilegu jólaskapi. Fyrir það fyrsta þá fær maður að leyfa sér konfekt og kræsingar eftir fjögurra mánaða strit og puð. Það þýðir víst ekkert að fá eitthvað samviskubit , því maður verður að horfa á "stóru myndina" í öllu saman. Ég er nú búinn að losa mig við 26 kíló á tæpum fjórum mánuðum með samviskusemi og miklum aga í mataræði og því á það alveg að vera leyfilegt að leyfa sér það sem maður vill um hátíðarnar, svo framalega sem það sé í sæmilegu hófi og maður taki vel á því eftir áramót.

Jólin geta verið tími þar sem stressið á til að taka völdin, en það er hægt að díla við það á ýmsan hátt. Persónulega ákvað ég í nóvember að ég myndi klára jólagjafainnkaup fyrir desembermánuð svo ég gæti átt þessa 22 daga, sem ég verð fyrir sunnan, í ró og friði. Það hefur heppnast hreint frábærlega og fyrir vikið er maður rólegri og yfirvegaðri í umferðinni, því maður er jú ekkert að flýta sér í og úr búðum til að redda gjöfum. Það hefur líka tekist vel upp með að taka bjartsýnina og hjálpsemina á þetta. Til að mynda hef ég boðist til þess að elda ofan í fjölskyldu mína alla dagana sem ég verð á Króknum, og þar með talið aðfangadagskvöld. "Gulldrengurinn", eins og systur mínar kalla mig stundum, er víst orðinn nógu fullorðinn til þess að sjá um kræsingarnar ofan í mömmu sína og pabba sinn , sem er ekkert nema hið besta mál. Ég hef það á tilfinningunni að þessi jól eiga eftir að verða með þeim betri sem ég hef átt, þó svo að það sé erfitt að toppa síðustu jól , þar sem ég var í faðmi æðislegu tengdafjölskyldu minnar á Blönduósi.

Það eru ekki bara jólin sem eru tími til að hlakka til , einnig eru áramótin orðin stór hefð hjá okkur Jóhönnu. Gamlársdagur fer nánast allur í það að undirbúa matinn og þetta ferli er nokkura klukkutíma langt, þar sem við gæðum okkur á humarhölum í forrétt , fáum nógan tíma til að melta og síðan er það "Beef Wellington" í aðalrétt , þó svo að ég leyfi oftast Jóhönnu að borða mestmegnis af smjördeiginu utan um kjötið hjá mér. Svo munum við hafa einhvern svakalegan eftirrétt með þessu. Hvítvín, rauðvín, freyðivín og jafnvel Strawberry Daquiri verða borin fram . . en þó skal taka það fram að þetta er náttúrulega bara við tvö, þannig að gamlárskvöld snýst aldrei um neitt fyllerí hjá okkur ... bara eintóm rómantík og huggulegheit. Við kaupum ekki flugelda þetta árið , heldur ætlum við að láta það nægja að horfa á aðra sprengja upp flugeldana í ár .. enda erum við með frábært útsýni yfir Höfuðborgina í stofuglugganum okkar.

Semsagt - Jól og Áramót eru tími sem við eigum að njóta lífsins í botn, taka öllu með yfirvegun og aldrei skilja eftir góða skapið í rúminu þegar við rífum okkur á lappir.

Ég hlakka mikið til þess að hitta Króksara, vini og ættingja um hátíðarnar og ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vonandi mun 2012 vera gott ár fyrir okkur öll.

Kv . Jóla-Binni


Friday, December 16, 2011

Top 10 nauðsynlegir "hlutir" á heimilið !!!

Núna ætla ég að vera eins og gellan á bleikt.is sem gerir top 10 hluti um ALLT. Á heimilinu mínu eru alls konar skemmtilegir hlutir sem maður þarf að nota daglega til að meika lífið , hérna eru þeir:

10.

Sítruspressa er hið mesta þarfaþing - Hvort sem það er til þess að pressa safann úr sítrónum í einhverja góða sósu eða það sem ég nota þetta mest í - Ferskan appelsínusafa - Það fást alveg geðveikar appelsínu í Kosti og Krónunni frá Sunkist sem eru oftast alveg hrikalega góðar og djúsí - Fátt betra en að fá sér nýkreistan appelsínusafa.

9.
Pokaklemmur eru fyrirbæri sem ég kynntist ekki almennilega fyrr en Jóhanna fór að kaupa þetta inn á heimilið. Það er ótrúlegt hvað það er miklu skemmtilegra og auðveldara að skella hlutum í poka, setja pokaklemmu á hann og setja í ísskáp/frysti. Bless bless matarfilma.

8.


Blandarinn góði - Ef ég ætti nú bara svona fínan blandara þá væri ég ánægður. .. en ég keypti mér nú samt nýjan um daginn sem er hin ágætasta eign. Þetta er græjan sem að reddar manni ferskum smoothie úr frosnum ávöxtum og skyri ... millimál lífs míns.

7.

Kósý-buxur - Ég hef nú bara í gegnum tíðina gengið um í stuttbuxum heima hjá mér. Ég er nefnilega með þá áráttu að ég geng ekki í gallabuxum eða venjulegum buxum heima hjá mér. Heimilið er griðarstaður og þar á mér að líða vel. Keypti buxur í Europris sem eru svo fjandi þægilegar að ég fer oft í þeim í vinnuna líka þegar ég er á kvöld eða næturvöktum. Þær eru ekki töff... en fjandinn hvað þær eru þægilegar.

6.Lyftingarlóðin hjálpa mér að halda bingóvöðvunum nokkuð stífum og fínum. Það er ótrúlegt hvað það er hægt að gera mikið magn af æfingum með handlóðum , ein bestu kaup sem ég hef gert.

5.

Það er engin furða að George Foreman var svo stoltur af þessu grilli að hann setti meira að segja sitt eigið nafn á það - Þessi græja sigtar burt fljótandi fitu og steikir allt fljótlega og örugglega. Smá cooking sprey, góð krydd og kjúklingabringa í 10 mín á grillið ... próteinið í kjaftinn .. yndislegt.

4.Sjónvarpsflakkarinn minn frá Argosy er svo hrikalega mikil snilld. Mig dreymdi í mörg ár að eignast svona græju og lét svo loksins verða að því. Það er hrikalega þægilegt að geta horft bara strax á nýjustu þættina og bíómyndirnar. . eðallúxus.

3... og til að geta horft á nýjustu þættina og kvikmyndirnar .. þá þarf að hafa húsbóndastól til þess að njóta þess í botn. Lazyboy stóllinn minn, sem ég fékk gefins frá mömmu og pabba, er kannski ekki eins fínn og þessi á myndinni .. en ég get svarið það að hann er sá allra allra þægilegasti. Hann er eina mublan í stofunni sem er ekki úr dökkum við eða er svartum... engan veginn í stíl við neitt í stofunni ... en hann fær seint að fjúka , ég á í mjög flóknu ástarsambandi við hann.

2.

Það eru kannski einhverjir sem eru hissa á því að ég setji kaffivél í annað sætið .. en sannleikurinn er sá að ég ELSKA kaffi , það er uppáhalds drykkurinn minn á eftir ísköldu vatni. Dagurinn hjá mér getur ekki byrjað fyrr en ég hef fengið minn rjúkandi heita kaffibolla af ilmandi svörtu kaffi. Enga mjólk og engan sykur takk.

1.

Þessir tveir eru kannski ekki "hlutir" , en þeir eru það allra allra mikilvægasta á heimilinu. Það að hafa einhverja vitleysingja sem að taka á móti manni þegar maður kemur heim, kúra með manni upp í rúmi á kvöldin og sýna manni endalausa ást, skiptir svo helvíti miklu máli í svartasta skammdeginu.

Wednesday, December 14, 2011

Ísskápur og uppskrift.

Að lifa hollu líferni snýst mikið um það að vera vel planaður
og eiga alltaf til staðar ákveðna hluti sem maður er að borða í
daglegri rútínu. Ég ætla að skrifa upp lista hérna fyrir það sem
við Jóhanna reynum að eiga alltaf til í ískápnum, frystinum og skápunum.

Ísskápur:

- Nóg at vatni í flöskum
- Fjörmjólk
- Ab mjólk
- Skyr.is vanillu
- Lgg+
- Heilsutvenna
- Járn og fjölvítamín
- Grænmeti (paprika,gúrkur,sveppir,rauðlaukur,sellerý,laukur,sætar kartöflur,tómatar,brokkolí)
- Ávextir (epli,perur,appelsínur)
- Hvítlaukur eða skarlottlaukur
- Íþróttasúrmjólk
- Grísk jógúrt
- Lime-safi
- Mozarella ostur

Frystir:

- Kjúklingabringur
- Þorskur og Ýsa
- Ávextir (Jarðaber,Ananas,Mangó,Bananar,Bláber)
- Grænmetisbuff
- Hveitikím

Skápur:

- Tortilla kökur
- Kexið frá Ágústu Johnson
- Salsa sósa
- Sólþurrkaðir tómatar
- Tómatkraftur
- Góð krydd
- Kjöt og grænmetiskraftur
- Kaffi
- Canderel sykur
- Spelt
- Ólífuolía og matarolía
- Hrísgrjón
- Granóla
- Rúsínur
- Hafragrautur

Þetta er svona það allra allra helsta sem að fer í innkaupakerruna okkar.
Með þessu er hægt að útbúa alls konar hollt lostæti eins og pizzu úr spelti
og hveitikími , karrýfiskrétt , fiskrétt úr pizzusósu, karrýkjúklingarétt,
kjúklingabringur með hrísgrjónum fersku grænmeti og jógúrtsósu og svo
mætti lengi telja. Uppáhalds morgunmaturinn minn er t.d vanillu skyr.is með
granóla, rúsínum og frosnum bláberjum .. þetta er alveg hryllilega góð
blanda .. full af próteinum og trefjum og hörkugott til þess að starta
daginn. Mér finnst svo gott að búa mér til boozt um miðjann daginn úr
frosnum jarðaberjum, ananas, banönum og skyri. . jafnvel henda smá af
gojiberjum inn í blönduna líka til að fá trefjakick úr honum. Kjúklingabringurnar
eru svo alltaf eitthvað sem gott er að grípa í , fljótlegt að matreiða
og þarf ekki að vera eitthvað fensí - Steikja kjúklingabringu í ofni(eða
samlokugrilli) , gera sína eigin jógúrtsósu með , sjóða hrísgrjón og
hafa svo ferskt grænmeti með. . .þetta er hin fullkomna máltíð í rauninni.


En uppáhaldið mitt þessa dagana er Fiskisúpa sem ég hef verið að þróa.
Hún er alveg æðislegt, hressandi bragð og er alveg hentug svona í vetrarkuldanum.

Ég hendi hérna inn uppskriftinni af henni og vona að þið eigið eftir
að prófa hana. Uppskriftin er fyrir einn-tvo (dugar venjulega í tvær skálar rúmlega)


OFUREINFALDA FISKISÚPA BINNA.

- 500 ml grænmetissoð (vatn og einn kubbur grænmetiskraftur)
- 1 matskeið af tómatpúrru
- Hálf stór sæt kartafla
- 1 laukur
- Krydd að eigin vali (ég nota timjan, estragon, smá salt og pipar)
- 2-3 flök af ýsu.
- 2 msk Ólífuolía (eða matarolía)

Aðferð:

Saxið niður kartöfluna og laukinn smátt niður og steikið í 2-3 mínútur í
olíunni í heitum potti. Kryddið svo temmilega. Setjið því næst tómatpúrruna og hrærið pínu.
Því næst er grænmetissoðinu helt saman við og þessu er leyft að sjóða
á vægum hita í 30 mínútur. - Á meðan getið þið tekið fiskinn og skorið
í smáa bita. Setjið fiskinn ofan í þegar súpan hefur soðið í 30 mínútur
og leyfið að sjóða í 15 mínútur með fiskinum. Fiskurinn maukast í
súpunni á þessum 15 mínútum og verður í raun að einni heild með
kartöflunum og lauknum. Fyrir þá sem vilja hafa fiskbitana stærri og
ekki jafn mauksoðna, þá er gott að setja fiskinn í stærri bitum ,
leyfa fisknum að sjóða með súpunni í 2 mínútur , slökkva undir og bíða
í 10 mínútur. Mér finnst persónulegra betra þegar hann er orðinn mauksoðinn
með súpunni , þá verður þetta meira svona Súpa/Kássa.

En ég hendi með
einni mynd til að sýna ykkur :) Vona að þið prufið þetta og ég skal
reyna að vera duglegur að henda inn fleiri uppskriftum :)
Saturday, December 10, 2011

Úr partýfíflinu yfir í nágrannann sem kvartar yfir hávaða.Það er ekkert alltof mörg ár síðan að hérna í Kjarrhólmanum, nánar tiltekið í íbúðinni minni, voru helgarnar oftast í líkingu við satanískar fórnarmessur. Það voru haldin massív partý hérna með tilheyrandi látum. Drykkjuspil voru spiluð , spilað var á gítar.. og oft á fleiri hljóðfæri , jello-shots voru skotin niður í lungun og fólk var æpandi drukkið. Hver man ekki eftir Eurovision-partýinu þar sem allt fór úr böndunum ? Fólk var hlaupandi um á brókinni fyrir utan blokkina, glös voru brotin í andyrinu , sumir voru að drepast á stigaganginum og í kringum 40 manns voru þegar gleðin var hvað mest. Nágrannarnir voru að missa vitið yfir mér og það var ekki fyrr en eftir þetta sögufræga partý að ég fór aðeins að skoða mín mál og hætta þessu partýstandi í íbúðinni .. þrátt fyrir að eitt og eitt partý hafi sloppið inn á milli eftir þetta fíaskó.

Núna í dag er maður vel settur, með konu og tvö "börn" og heff samt ENGAN skilning á partýstandinu í fólkinu í númer 22. Þar eru haldin mjög svo hávær partý helgi eftir helgi, og ef það eru ekki partý , þá eru það Liverpool leikir og einhver slatti af gaurum öskrandi liðið sitt áfram. Þetta fólk virðist vera búið að stúdera vaktirnar hjá mér í vinnunni , því þau passa sig á því að halda alltaf klikkuðustu partýin þegar ég er á næturvakt í vinnunni. Eitt slíkt var akkúrat haldið á föstudagsnóttina og þurfti að kalla til lögregluna þegar hægt var að heyra hvert einasta orð úr hverjum einasta texta í hverju einasta lagi sem þau voru að hlusta á (og syngja með).

Þannig að þrátt fyrir allt partýstandið á mér frá 2006-2010 , þá get ég samt verið ömurlegi nágranninn sem hringir í lögregluna ef að maður getur ekki sofið fyrir látunum í Partýfólkinu í númer 22.

Kv. Gamli maðurinn.

Friday, December 9, 2011

Aftur í tímann.....

Sæl verið þið.

Ég hef átt þónokkuð mörg blogg í gegnum tíðina - Upphafið af þeim virðist aðallega tengjast flutningi mínum til Stokkhólms árið 2003. Bloggið hefur eflaust verið mitt verkfæri til þess að koma frá mér fréttum úr lífi mínu þar , en oftast voru þetta nú bara einhverjar hversdagslegar pælingar um ekki neitt. Ég ætla að reyna að vera með alls konar blammeringar og skemmtilegheit hérna, hvort sem það tengist heilsu, næringu, matargerð, ferðalögum, þjónustu . . það verður bara að koma í ljós.

Fyrsta hugleiðing mín er hins vegar:

Anda inn......Ég hef einungis einu sinni þurft að panta mér flugfar með Iceland Express og það var eingöngu gert vegna þess að þeir voru þeir einu sem flugu út til Lúxemborgar. Þetta var one-way ticket og ekkert klikkaði. Þetta var árið 2009. Síðan þá hefur þessu sorglega flugfélagi farið aftur og hef ég verið voðalega duglegur að gera grín að fólki sem hefur verið að panta sér flug með þeim, vitandi að það muni væntanlega klikka. Þess vegna líður mér eins og hálfvita að hafa látið eitthvað sólarhringstilboð leiða mig út í þá vitleysu að panta far til og frá Köben með þeim. Ég pantaði samviskusamlega á netinu hjá þeim og átti far út 13.des og aftur heim á klakann 16.des. Þar sem ég hef pantað mér ófáar flugferðirnar í gegnum tíðina (nota bene, ég hef t.d farið 10 sinnum til Köben í gegnum tíðina) þá gerði ég allt rétt í bókunarkerfinu á netinu. En svo þegar kvittunin kom í emaili og smsi þá stendur á henni að flugið okkar heim til Íslands sé viku fyrr , semsagt 9.des - Í algjöru panikki þutum við Jóhanna niður í Höfuðstöðvar þessa skítafyrirtækis og vonumst náttúrulega til þess að þessi mistök verða leiðrétt. Þegar við mætum þá er konan í afgreiðslunni upptekin við að sinna kúnna. Þessi kona virtist vera almennileg, eldri kona og góðleg ... það átti eftir að breytast. Við setjumst niður hjá henni og segjum henni að tölvukerfið hjá þeim hafi gert mistök, sem væri svosem ekki skrítið , þar sem mörg þúsund manns hafi verið að bóka á sama tíma og á tímabili fór kerfið í fokk hjá þeim. En hjá Iceland Express , þá hefur kúnninn ALDREI rétt fyrir sér. Mistökin voru algjörlega okkar og það eina sem hægt var að gera fyrir okkur væri að breyta dagsetningunni og borga fyrir það 80 þús krónur takk fyrir. Það kom náttúrulega ekki til greina, þar sem miðarnir tveir fram og tilbaka kostuðu einungis 25 þús á þessu tilboði þeirra. Ég hef nú unnið hin ýmsu afgreiðslustörf í gegnum tíðina og ég hef sjaldan mætt eins lélegu viðhorfi og þjónustulund og hjá þessari kerlingarálft , hún er greinilega í kolröngu starfi og ætti ekki að vera að reyna að sinna kúnnum. Ég verð að viðurkenna að Jóhanna tók nú mestmegnis að sér að standa í hárinu á henni, aðallega vegna þess að ég var svo sjokkeraður á ömurlegri þjónustu hennar .. ég hélt að ég væri bara að fara að díla við einhverja góða ömmu .... nópz.... Ömmu Satans í þessu tilviku.

Ég er búinn að vera að blóta þessari kerlingarherfu og þessu ömurlega flugfélagi síðustu daga , en ætli ég nái ekki að anda rólega eftir morgundaginn þegar ég hef dílað við endurgreiðsluna frá þeim ... þ.e.a.s ef það mun ganga upp.

Í staðinn fyrir þessi vonbrigði þá ákvað ég nú að bjóða Jóhönnu með mér,mömmu og systrum mínum út til Englands í byrjun Janúar til að sjá Manchester United spila við Bolton.. smá sárabót í þetta skiptið.

Ég hef því eignast nýjan erkióvin í Iceland Express , bætist við gubbísgerðinni Yoyo og Vinnumálastofnun. Ég reyni nú ekki að eignast marga óvini á lífsleiðinni en þessir þrír standa upp úr klárlega.
.... og anda út.

Ég ætla að reyna eins og ég get til þess að viðhalda þessu bloggi , þó það sé ekki bara til þess að skemmta Hákoni Frosta í smástund. Næsta blogg verður fullt af hamingju, regnbogum og englatárum og vonandi ekki þessi kvörtunarrembingur .. nóg komið í bili.

Með kærri kveðju.

Binni