Friday, August 10, 2012

Ekki nógu duglegur að blogga...

Ég biðst afsökunar á bloggleysi hjá mér , hef bara ekki fundið kraftinn til þess að rita niður einhver orð , en ætli ég fari ekki aðeisns yfir síðustu vikur.

Ég er loksins kominn niður í tveggja stafa tölu , búinn að hrista af mér 10,5 kíló þegar þetta er skrifað . . en gæti hæglega verið búinn að gera betur, ef ekki hefði verið fyrir nokkur fyllerí hér og þar og smá "svindli" hér og þar. En ég er heiðarlegur við sjálfan mig og reyni eftir bestu getu að hreyfa mig með því að fara í kraftgöngur og gera æfingar með lóð og án lóða heima . . en í raun er þetta bara undirbúningur fyrir komandi átök í haust,  því ég ætla mér... ÆTLA mér að fara í 90 kíló, sem mér hefur aldrei tekist á fullorðinsárunum.

Til þess að hjálpa mér við það þá ætlum við Jóhanna að kaupa okkur parakort í ræktinni í sundlaug Kópavogs,  komin með æfingaráætlun/kerfi og mataræðið er algjörlega búið að taka í gegn . . þannig að haustið ætti að verða mjög athyglisvert. .. bæði erfitt og krefjandi .. .en þegar árangurinn fer að láta sjá á sér, þá verður þeta allt saman mjög æðislegt og hamingjusamt. .. ekki það að útlit skipti öllu , en heilbrigði er ansi mikilvægt og ekki skemmir að línurnar séu í lagi.

Þetta sumar hefur verið frekar kaflaskipt og furðulegt, bæði út af því að Jóhanna hefur verið að vinna á Blönduósi frá miðjum júní og ég því einn heima í allt sumar, og líka út af því að ég var kominn upp í 110 kíló þegar ég ákvað loksins að gera eitthvað í mínum málum núna í júní.

Ég hef því miður ekkert verið að taka einhverjar "fyrir-eftir" myndir ,enda þarf fólk svosem ekkert að vera spammað á facebook af einhverjum svoleiðis myndum .. það þarf bara að hitta mig í eigin persónu :)

En ég hef þetta ekkert lengra... kveð í bili.

Upphafsdagur - 26.júní  - 110 kg

45 dagar liðnir - 99,5 kg        =  - 10,5 kg.

Saturday, July 28, 2012

Friday, July 13, 2012

17 dagar.....

Þá eru komnir 17 dagar af allsherjar heilsu og góðu mataræði og fokin eru af mér 6,3 kíló , sem er mjög ánægjulegt þar sem ég ætlaði mér í fyrstu að ná af mér sjö kílóum fyrir Húnavöku, sem er eftir viku , þannig að ef ég held áfram sömu braut, þá næ ég því takmarki auðveldlega... og jafnvel gott betur.

Þó skemmdi það aðeins fyrir að ég hrundi hreinlega í það síðasta laugardagskvöld með tilheyrandi þynnkupizzu og óhollustu daginn eftir, þannig að ég gæti verið búinn að ná betri árangri , þó svo að ég sætti mig við þessi 6,3 kíló sem eru farin.

Ég þarf svosem ekkert að fara ítarlega út í það sem ég er að gera, hef margsinnis sagt frá mínum lífsháttum þegar ég er að taka mig á og ég held mig alltaf við margar smáar máltíðir yfir daginn, á þriggja tíma fresti og nóg af vatni. Engin óhollusta.

Næst á dagskrá er að reyna að fara að taka á því í lyftingunum , því maður vill fá einhverja vöðva líka . . en það gæti orðið erfitt út af brjósklosinu í bakinu á mér, þannig að ég verð að fá einhverja faglega hjálp við þær... annars enda ég á því að rústa endanlega á mér bakinu.

Ég kveð í bili.


17 dagar   -   Upphaflega: 110 kg     -   Föstudagur 13.júlí = 103,7kg    - Farin = 6,3 kg

Thursday, July 5, 2012

9 dagar !!

Svona lítur hinn týpíski morgunmatur út hjá mér - Vanillu Skyr.is,Rúsínur, frosin bláber og granóla .. hryllilega góð blanda af trefjum,próteinum og ávöxtum.

Jæja , þá er maður búinn að vera að taka sig í gegn í mataræðinu og hreyfingunni í 9 daga núna , og nú þegar eru 4,4 kíló farin af manni. Að vísu eru fyrstu 2-3 kílóin að mestu leyti vökvalosun , en engu að síður getur maður verið sáttur með byrjunina. Það þýðir ekkert annað en að keyra sig almennilega í gang og vera þolinmóður.... sem hefur nú reyndar aldrei verið minn helsti styrkleiki. Mér finnst alveg agalegt þegar ég stíg kannski á vigtina og það eru bara nokkur grömm farin af mér , en þá hugsar maður bara "góðir hlutir gerast hægt" Ég hef gert þetta nokkrum sinnum áður með góðum árangri , þannig að ég veit að þetta tekst að lokum.

Í þetta skiptið er þetta reyndar erfiðara en áður, því að það er engin Jóhanna til þess að vera með mér í þessu og styðja mig og hvetja mig áfram hérna heima , þar sem hún er á Blönduósi í sumar. Þannig að ég er að taka á öllum mínum viljastyrk þessa dagana og reyndar hef ég ekkert verið að freistast neitt undanfarið , allt hefur gengið mjög vel fyrir sig . . en það koma alltaf upp einhverjar stundir seinna meir þar sem maður þráir bara að geta troðið pizzu í andlitið á sér, eða drukkið kók, eða fengið sér bjór á kvöldin.... en það verður ekkert svoleiðis á næstunni.

Ég hef oft fengið að heyra það að það sé ekki heilbrigt að missa ... tjah.. eins og t.d 4,4 kíló á 9 dögum , en það verður að horfa á heildarmyndina. Bæði er ég fljótur að bæta á mig og ég er fljótur að brenna. Týpískur dagur hjá mér , þegar ég var hvað verstur, var hryllilegur í mataræðinu. Ég gat t.d tekið 2 risastór baguette , smurt þau með piparostarjómaosti og skolað því niður með lítra af kóki. Svo um miðjann daginn fékk maður sér kannski 2 popppoka og meira gos, jafnvel snakk og kex/nammi með. í kvöldmat torgaði maður svo niður heilli 16"pizzu frá Dominos og jafnvel eitthvað af brauðstöngum. Að minnsta kosti 2L af Coke á dag var ég að drekka á svona degi. Þannig að þið getið ímyndað ykkur hvernig líkaminn tekur stökk , þegar maður breytir allt í einu um mataræði og fer að borða hollt , hann fer á fullt og byrjar að losa sig við þessi aukakíló hratt , ef maður er nógu strangur á sjálfan sig. Þannig að ég er löngu hættur að hlusta á fólk sem er eitthvað að predika yfir mér að þetta gerist eitthvað hratt hjá mér, því það ætti bara að fylgjast með mér hvernig ég er að éta og hreyfa mig ekkert , þegar ég er hvað verstur. Ég veit semsagt hvað ég er að gera.

Auðvitað er kjánaleg tilfinning að vera að rita þessi orð, þar sem ég hef a.m.k tvisvar , þrisvar sinnum gengið í gegnum þetta sama. Í fyrsta skipti sem ég tók mig í gegn árið 2008 fór ég úr 126,4 kílóum niður í 92 kíló þegar mér gekk hvað best. Síðan var ég alltaf að halda mig í kringum 94-97 kíló en svo bætti ég á mig aftur og fór upp í 121 kg sumarið 2011. Þá fékk ég nóg af sjálfum mér og náði að koma mér niður í 96 kíló sem ég var sáttur með. Síðan komu jólin og áramótin og Manchester-ferð með þvílíku sukki og síðan hætti ég að reykja í einhver tíma, og þá leitaði ég bara í óhollustuna. Eins heimskulegt og það hljómar, þá gengur mér alltaf best í að halda mér hollum, þegar ég hef sígarettuna mér við hlið. Það er auðvitað ömurlegt... en einn daginn á ég eftir að ná að "mastera" það að vera reyklaus og lifa heilsusamlegu líferni. .. sá tími er bara ekki akkúrat núna.

En nóg í bili , ég droppa inn pistli eftir rúmlega viku eða svo.

Kv. Binni

9 dagar    -     110 kg í  byrjun     - 105,6 kg núna   -   4,4 kg farin af.

Tuesday, June 26, 2012

...and here we go again !

Ég sagðist ætla að hætt að blogga.... ég laug.

Það helst svolítið í hendur að ég þurfi að blogga og þegar ég þarf að taka mig á í mataræði og hreyfingu.

Eftir jólin,áramótin og Manchester í janúar þá hefur maður verið alveg hrikalega lélegur í að viðhalda líkamanum, sem skilar sér í nógri fitu utan á líkamanum og aukalegum kílóafjölda á vigtinni. Nú er svo komið að ég er búinn að hlaða á mig einhverjum 13 kílóum síðan í desember og það kemur alltaf svona stund ; "That´s it" . Þessi stund kemur venjulega eftir mánaðalangt sukk og sérstaklega eftir einhverja góða djammhelgi ... sem var núna síðast á lummudögum , með tilheyrandi búsi, grillmat og þynnkumat.... nú er komið nóg.

Í dag er fyrsti dagurinn sem ég nennti loksins að hreyfa á mér rassgatið , ég skellti mér út í hinn venjulega gönguhring í Kópavoginum og gerði mínar æfingar með lóðum og tilheyrandi hérna heima og hef verið duglegur í mataræðinu í dag. Stefnan er tekin á að halda mér edrú allavega fram að Húnavöku og sjá svo til eftir það.

Þessa vikuna er ég að borða fiskisúpu í kvöldmat. Hún hentar einstaklega vel því að ég geri bara grunninn sjálfan og svo tek ég út fisk úr frysti og set svo út í súpu á kvöldin, og þá get ég geymt soðið í nokkra daga... þetta geymist furðu vel.

Súpan er samansett úr sætum kartöflum, lauk,brokkolí, tómatpúrru,salsa sósu,vatni ,kryddi og grænmetisteningum. Mjög einfalt og gott... og síðan er ýsu bætt við , eins og einu og hálfu flaki fyrir hvern kvöldmat.. hollt og gott.

Þar sem ég er ekki með myndavélina hérna fyrir sunnan, þá verða ekki neinar fyrir/eftir myndir í þetta skiptið. .. þið fáið bara tölur.

Þriðjudagurinn 26.júní   -  110 kg ..... stefnan tekin á að missa 15 kíló á næstu mánuðum.

KOMA SVO !

Monday, April 16, 2012

Að lokum.....

Ég hef ákveðið að draga mig í hlé á þessum bloggskrifum.

Ég byrjaði aftur að blogga með það að hugarfari að koma með blogg um heilbrigðan lífsstíl og allt sem því fylgir . . og ég er eiginlega bara kominn á endastöð með ráðleggingar og hollusturáð.

Lífið er líka ekki bara einhver endalaus barátta við aukakílóin . . . það er margt fleira sem maður þarf að hugsa um og óþarfi að vera alltaf að einblína á þetta atriði.

Ég er orðinn reyklaus, nánast hættur að drekka og lífið er fínt.

Takk fyrir mig.

Kv. Binni

Saturday, April 7, 2012

Söngkeppni Framhaldsskólanna


Söngkeppni Framhaldsskólanna er keppni sem á ávallt sérstakan stað í hjarta mínu, aðallega vegna þess í henni tók ég mín fyrstu spor í tónlistinni þegar ég fékk að flytja lag eftir Andra Má fyrir Hússtjórnarskólann á Hallormsstað árið 2003. Einnig tók ég þátt árin 2005 og 2006 í aðalkeppninni fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra með ágætis árangri.

Vegna þess að þessi keppni er mér svo kærkomin, þá þykir mér miður hvernig hún er orðin.


Fyrirkomulagið er semsagt þannig að núna senda 32 skólar inn myndbönd á mbl.is og fólk getur skoðað myndböndin þar og sent svo sms í númerið sem að laginu er gefið. Skipuð er sérstök dómnefnd til að vega upp á móti sms-kosningu og komast einungis 12 lög áfram í beina útsendingu á RÚV sem verður svo síðar í mánuðinum.

Í fyrsta lagi þykir mér það mjög furðulegt að leyfa ekki öllum að stíga á stokk í beinni útsendingu á RÚV. Ein mesta upplifunin við þetta er að fá að koma fram fyrir framan fullt af áhorfendum og í beinni útsendingu á RÚV þar sem fjölskyldan getur fylgst með manni í gegnum sjónvarpið og hvatt mann áfram. Einnig er ein mesta spennan við þetta að þetta er allt í beinni útsendingu og allt getur gerst, í staðinn fyrir að í þessum myndböndum sem birtast á mbl.is , þá er hægt að klippa allt til og frá og hægt að taka eins margar tökur og hægt er ... það gerir þetta bara leiðinlegt og lítið spennandi.

Í öðru lagi , þá eru skólar utan af landsbyggðinni aldrei að fara að komast áfram í þessa 12 skóla söngkeppni á RÚV, einfaldlega því að þeir eru ekki nógu stórir. Ég hef enga trú á því að dómnefndin nái að vega það mikið upp á móti risastóru skólunum, þannig að 3-400 manna skólar í litlum bæjarfélögum eiga á harðan að sækja í þessari vinsældarkosningu.

Í þriðja lagi finnst mér náttúrulega að það ætti að vera dómnefnd sem velur í fyrstu þrjú sætin, og allir skólarnir taka þátt á sama kvöldinu , og sérstök sms-verðlaun verða fyrir vinsælasta atriðið. Mér finnst alltof mikið verið að gefa valdið til fólksins í landinu, sem er ekkert endilega að reyna að veita þeim sem eru með besta SÖNGinn verðlaun, enda er þetta bara vinsældarkosning. Ég treysti fagaðilum til þess að velja bestu SÖNGatriðin og ég treysti þjóðinni til þess að velja vinsælasta atriðið.

Ég er mjög stoltur af FNV að hafa sagt sig úr SÍF, enda hef ég heyrt að undirbúningurinn hafi verið hreint hörmulegur og keppendum sagt að lögin mættu bara vera 2 mín að lengd, en síðan var sú regla bara tekin af og þeir sem voru búnir að hafa fyrir því að gera íslenskan texta við erlent lag ... þeir geta bara annað hvort verið stoltir af sínum íslenska texta eða verið hundfúlir því það má víst syngja lögin á ensku í ár. Eitt það besta við þessa keppni er akkúrat að hún hefur verið á íslensku. Það er gaman að sjá hvernig krakkarnir spreyta sig á því að þýða ensk lög yfir á íslensku. Mér þykir þetta stefna í eina allsherjar karokíkeppni.
Ég er kannski voðalega gamaldags í þessu, en mér þykir keppnin vera að taka hrikalega mörg skref niður á við.

Ég vona svo sannarlega að litlu skólarnir komist áfram í þessa "frábæru" 12 laga keppni og vonandi hafði ég rangt fyrir mér varðandi það að þeir eiga engan séns.

Áfram litlu skólarnir !!!

Tuesday, March 27, 2012

Veður og Vindur.

Já. . svona getum við hjúin nú dressað okkur upp og verið sæt stundum.... en að öðru.

Ég þrái það svo innilega heitt að fá sumarið , eða allavega fá sól og smávegis hita. Ég er kominn með nógu mikið ógeð á roki og rigningu og sérstaklega mikið ógeð á því að veðrið getur aldrei verið eins í fimm mínútur. Ég fór til dæmis tvisvar út að labba í morgun og í bæði skiptin þá var sól þegar ég leit út um gluggann og um leið og ég var kominn út þá var komið rok og rigning ... svosem týpískt íslenskt veður, en þetta fer að verða komið ágætt.
Það hjálpar mér einnig þegar veðrið er sæmilegt, þá hundskast maður út að labba sinn "daglega" göngutúr , sem ég á að labba út af brjósklosinu mínu . . en hver nennir að fara út að labba þegar vindáttin breytist í hvert einasta skipti sem maður snýr sér við . . það er eins og að vindurinn sé bara að leika sér að blása alltaf í andlitið á manni.. endalaust fjör.

Sumarið í ár er reyndar ótrúlega lítið planað miðað við síðustu sumur. Eina sem er á planinu hjá okkur er að fara í bústað með fjölskyldunni hennar Jóhönnu í maí og síðan mun ég náttúrulega reyna að komast á Lummudaga á Króknum .. fer reyndar allt eftir vinnunni, en ég ætla mér að taka voðalega lítið sumarfrí þetta árið . . tók alveg fjórar vikur í fyrra og það var alveg alltof mikið. Ætli maður reyni ekki að gera eitthvað fyrir íbúðina í sumar einnig , löngu kominn tími á að mála alla veggina hérna. . ég veit allavega að maður reynir að halda sér uppteknum því ekki vill maður detta í eitthvað bjórsull og snakk . . . bara á laugardögum takk.

En annars eru komnir 8 dagar af reykleysi , níkótínið loksins að komast úr líkamanum og maður finnur það að maður er ekki jafn móður og másandi alla daga og þolið á eftir að byggjast upp hægt og bítandi. Það fer bara endalaust í taugarnar á mér að vera með ónýtt bak, því maður getur ekkert kíkt í fótbolta eða körfu af neinu viti. . . þó svo að ég eigi eflaust eftir að stelast eitthvað, annars verð ég geðveikur.... enda friðlaus.

Kv. Binni

Friday, March 23, 2012

Á morgun segir sá lati ... í næstu viku segi ég !

Jæja.

Núna er maður á fimmta degi reykleysis og ég get alveg viðurkennt það að þetta er drulluerfitt, með því erfiðara sem ég hef gert í gegnum tíðina . . það er erfitt að vera háður einhverjum svona viðbjóð , þó svo að ég hafi í rauninni ekki reykt lengur en í 5 ár (dagreykingarmaður ... reykti nú á djamminu hérna í denn).

Mér fannst það oft fyndið og í raun og veru asnalegt þegar ég heyrði af fólki sem hætti að reykja og þyngdist í kjölfarið eitthvað verulega , ég hugsaði sem svo "Hvernig tengist þetta tvennt saman ... sígarettur og matur ?" Ég er algjörlega tilbúinn að éta allt það sem ég sagði áður ofan í mig ... þúsundfallt.

Í þessari viku hef ég sótt alveg rosalega mikið í sætindi og mat, sérstaklega brauð . . ég er sjúkur í brauð þessa dagana, en brauð er einn allra helsti óvinur minn því ég blæs alveg út af því. Svo var það ekki að hjálpa að við unnum páskaegg á árshátíðinni hjá RB fyrir að vera ótrúlega snjöll í tónlistargetraun (og ótrúlega fljót að gúgla á snjallsímum). . . nammið er gott þessa dagana.

En en en .... ég vissi alveg að þetta myndi verða svona fyrstu dagana á meðan nikótínið væri að fara út úr líkamanum , þetta er ekkert ástand til lengri tíma . . enda er ég að fara á næturvaktaviku í næstu viku og ótrúlegt en satt , þá kemst mataræðið í þokkalegt lag alltaf á þeim vaktavikum. Við erum svo að fara í brunch í fyrramálið á Hótel Sögu þar sem við ætlum að háma í okkur vöfflur og egg og beikon og ýmislegt gúmmelaði og elda eitthvað gott í kvöldmatinn líka , taka almennilega helgi áður en maður byrjar á því að púla aftur.

Svo hef ég ákveðið að safna þykku alskeggi í þokkabót... bara svona upp á flippið.

Kv. Binni Skeggvalds.

Tuesday, March 20, 2012

Nó-Smókí - Hólý Mólí.

Þriðjudagur genginn í garð , sem er í sjálfu sér ágætt því að gærdagurinn var frekar erfiður eftir vægast sagt glæsilegan laugardag og þynnkulegan sunnudag.

Það var brunað á Selfoss á laugardaginn til að taka þátt í árshátíð RB og það var drukkið mikið , borðað fínan mat og skemmt sér frameftir nóttu. Síðan var keyrt heim á sunnudeginum í brjálæðislegri þynnku og fór sunnudagurinn eiginlega bara fram fyrir framan sjónvarpið, upp í sófa og lazy-boy ... sannkallaður letidagur.

En það sem er einna helst í fréttum núna, er það að við Jóhanna erum loksins búin að ákveða það fyrir fullt og allt að hætta að reykja og það verður engin uppgjöf í þetta skiptið. Við erum nú reyndar bara á degi tvö í þessu hjá okkur , en við munum vera hörð og harka þetta af okkur. Ég ákvað líka að prófa að hætta að drekka kaffi líka, sem fór ekki betur en svo að ég var bara dottandi í lazy-boy sófanum eftir vinnu og hafði ekki orku í neitt... þetta verða átök.

Við erum að sjálfsögðu komin í áfengisbindindi líka , enda helst það ekki vel í hendur að hætta að reykja og detta í það um helgar ... gengur engan veginn upp.
Þannig að ég á ekki eftir að sjást mikið út á lífinu næstu mánuði.. ætla bara að einbeita mér að því að hætta að reykja og minnka kaffidrykkjuna.... og ekki detta í brjálæðislegt sukk í staðinn í namminu og matnum .... þó svo að ég hafi átt frekar slæman gærdag vega nikótínskorts og pirrings.

Núna verður bara tekið á því ... ekkert kjaftæði !!

Monday, March 12, 2012

Smá pása ...

Jæja, komið þið nú sæl og blessuð.

Ég hef alveg verið að klikka á því að uppfæra bloggið hjá mér. Ég gæti alveg logið því að ykkur að það hefur verið svo mikið að gera hjá mér.... eeeen ég ætla að kenna letinni bara um.

Ég hef verið að koma inn með færslur um að ég hafi átt einhverja "leti-daga" og því um líkt og hef ég svosem átt svoleiðis undanfarið ... frívikurnar hjá mér eru oftast voðalega kósý og óhollar.

Ef það er eitthvað sem ég veit eftir að hafa tekið nokkra daga í óhollustu .. þá er það að ég kem alltaf tvisvar sinnum öflugri tilbaka og á einhverjar þrjár hörkugóðar vikur þar sem árangurinn sést greinilega... bæði á vigtinni og á sálinni. Ég hef átt það til að detta í hálfgert þunglyndi þegar ég á svona slappa daga . . en ég hef ákveðið að hætta því hér með.

Það er engin ástæða til þess að vera með brjálæðislegan þrýsting á sjálfan sig. Lífið snýst að vissu leyti um það að reyna að vera heilsusamlegur og lifa með góðri samvisku , en öllu má nú ofgera. Ég hef verið rosalega strangur á sjálfan mig í gegnum tíðina, sérstaklega þegar ég tók mig fyrst í gegn líkamlega haustið 2008 ... það var náttúrulega bara heragi og fjarþjálfun og brjálæði. Ég hef lært að lifa aðeins meira með sjálfum mér og mínum líkama og hugarástandi síðustu ár núna. Þetta snýst ekki allt um útlitsdýrkun og mikilmennskubrjálæði í mataræðinu lengur. . . þetta snýst einfaldlega um að reyna eftir bestu getu að borða og hreyfa sig í sátt og samlyndi við samvisku sína. Þó ég borði drasl á fríviku frá Sunnudegi til fimmtudags, þá get ég notað næstu þrjár vikur eða svo til þess að borða hollt og hreyfa mig . Þetta "kerfi" virkar líka fínt, því ég er engann veginn að fara að missa einhver fleiri kíló og með þessu "kerfi" þá næ ég að standa ágætlega í stað. Get að vissu þyngst um 3-4 kíló á einni viku þegar ég er slæmur, en þau fara alveg á tveimur vikum ef ég stend mig vel... ekki spurning.

Ég er sennilega kominn í einhverja hringi..... en sem sagt, ég er sáttur með lífið, hamingjusamur og sækist ekkert eftir því að vera einhver nasisti á mataræðið og hreyfinguna, svo framalega sem ég get lifað sáttur við sjálfan mig ... þá er ég góður.

Þar hafið þið það :)

Monday, February 27, 2012

Mars > Febrúar

Það gleður mitt litla hjarta þegar snjóinn tekur að leysa og slabbið og hálkan kveðja göngustígana. Að fá smávegis hlýju og auða göngustíga og götur hjálpar mér alltaf að drattast út úr húsi og labba þessa 4 kílómetra á dag, sem ég hef verið að gera undanfarna mánuði út af brjósklosinu í bakinu á mér. Þegar snjórinn kom, þá fann ég alltaf ástæður til þess að sleppa því að fara út að ganga, sem er heimskulegt, því þessir göngutúrar eru það langbesta sem ég get gert fyrir bakið á mér. Maður á auðvitað ekki að láta einhvern snjó stöðva sig , enda er þetta víst bara einn líkami sem við fáum og ég ætla mér ekki að vera með ónýtt bak að detta í 28.aldursárið . . það kemur bara ekki til greina.

En síðasta vika var alveg ágæt, miðað við undanfarnar vikur. Mataræðið var tiltörulega rétt og hollt og ég náði að léttast um nokkur hundruð grömm á vigtunardeginum á föstudaginn , sem er bara besta mál , enda er ég ekki að gera mér neinar vonir um að missa helling af kílóum í viðbót , enda yrði það sennilega ekkert fallegt.

Ég hef örugglega ekkert verið að setja inn þyngdina á mér hérna inn, að ég held. Þegar ég byrjaði að taka mig á þann 28.ágúst þá mældist ég 121,1 kg , sem er náttúrulega bara alveg fáránlegt. Ég hef þó mest verið í 126,5 kg í kringum 2008 og þá náði ég að léttast niður í 92 kg þegar ég var hvað léttastur og miðað við myndir sem maður hefur skoðað frá þeim tíma, þá virðist 92 kg vera aðeins of lítið. Í dag er í kringum 95 kílóin og er mjög sáttur við þá tölu og því er eins gott að ég tek lítið sem ekkert mark á BMI-stuðlinum.

BMI-Stuðull :

Líkamsþyngdarstuðullinn fæst með því að deila þyngdinni í kílóum með hæðinni í metrum í öðru veldi. Þá fæst stuðull sem hægt er að bera saman við ákveðin viðmiðunargildi og meta þannig holdafarið.

Viðmiðunargildi kjörþyngdar , ofþyngdar og offitu.

Kjörþyngd: BMI 18,5 - 25
Ofþyngd: BMI 25 - 30
Offita: BMI yfir 30


Ef við reiknum hæðina á mér (188cm) og þyngdina (95kg) þá fáum við út 26,9 , sem þýðir samkvæmt þessu að ég sé í ofþyngd. Til þess að geta verið allavegana í kjörþyngd yrði ég að vera í kringum 85-87 kg , sem þýðir að ég yrði að losa mig við 8-10 kg í viðbót .. sem meikar engan sens því ég yrði bara horaður með þessu áframhaldi. Þess vegna er gott að hafa það til hliðsjónar að BMI getur ekki reiknað með beinaþyngd, líkamsbyggingu eða öðru. Þetta er sjálfsagt ágætis stuðull til þess að reikna eitthvað gróflega út ... en ég læt sko ekki neinn BMI stuðul segja mér að ég sé í ofþyngd.

Langbesta leiðin til þess að mæla sig á einhvern hátt, er auðvitað að taka málin á sér með málbandi og fylgjast með á vigtinni. Ég mæli með því að fólk prófi að fara allavega í fituprósent-mæingu hjá einhverjum sem kann á það, fyrir komandi átök og láti mæla sig reglulega. Ég persónulega þyrfti sjálfur að gera það við sjálfan mig en ekki alltaf bara horfa á tölurnar á vigtinni.

En ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í dag - Næturvaktavika hjá mér þessa vikuna , þannig að sólarhringurinn verður öfugur sem og matartímarnir ... krefjandi en skemmtilegt engu að síður.

Kv. Binni

Thursday, February 23, 2012

Allt í rétta átt.

Eftir að hafa byrjað þessa viku frekar illa, þá var ég frekar hissa á því , þegar ég steig á vigtina í morgun, að ég er búinn að léttast frá því í síðustu viku og gæti náð einhverjum grömmum af mér fyrir vigtunardag á morgun.

Það er alveg merkilegt hvað einn dagur af hollustu og smávegis hreyfingu getur bætt upp fyrir þrjá daga af óhollustu og leti. Í dag er ég eins og nýr maður , finn töluverðan mun á öllum líkamanum frá því í gær , er ekki eins útþembdur og skapið er gott.

Í kvöld verð ég að ná að sveigja framhjá mestu óhollustunni, því að tengdapabbi er að bjóða okkur Jóhönnu á Úrillu Górilluna í mat og boltagláp og því verð ég er reyna að halda mig við einhvers konar salat og drekka nóg af vatni með ... ekkert "Börger og bjór" i´þetta skiptið. Ennfremur stefni ég á það að taka næstu viku með trompi, enda Skagfirðingakvöld framundan og vill maður náttúrulega líta sæmilega út fyrir það.... spurning hvort maður raki á sér kollinn ?

Kemur allt í ljós :)

Tuesday, February 21, 2012

Andleysi.

Síðustu dagar hafa verið frekar andlausir hjá mér , sem er engum öðrum en mér sjálfum að kenna. Það þurfti ekki nema eitt fyllerí á laugardaginn til að höggva skarð í fínan árangur síðustu viku. Sunnudagurinn var náttúrulega, eins og gengur og gerist eftir djömm, frekar sóðalegur og var étið pizzu , étið snakk, drukkið gos, étið ís og tekið allan pakkann á þetta. Í gær var maginn náttúrulega á fleygiferð og maður ekki alveg í góðu ásigkomulagi og þegar maður kom heim eftir vinnu þá datt maður í einhvern sukkfíling aftur. Það þarf ekki nema lélega ástæðu eins og "Það er nú einu sinni bolludagur" að maður hendist út í bíl, keyri alla leið í Krónuna til þess eins að tékka hvort að það séu ekki ennþá til bollur sem maður getur háma í sig að kvöldi til. Þær voru hinsvegar ekki til þannig að ég réttlætti það með poppi,gosi og ís . . meikar sens er það ekki ?

Nei það meikar nefnilega engan bölvaðan "sens". Ég lofaði samt sjálfum mér (og Jóhönnu) að detta ekki í eitthvað þunglyndi og samviskubit út af þessum tveimur dögum , og það er í raun ótrúlegt hvað tveir slæmir dagar geta gert manni mikinn skaða eftir fjölmarga daga og vikur af ótrúlegum aga og góðu mataræði.

Mér finnst síðustu bloggfærslur hafa einkennst af hæðum og lægðum hjá mér og ég er kominn með leið á því að vera að játa það fyrir ykkur sem lesið þetta blogg, hversu upp og ofan þetta gengur hjá mér , því ég vil fara að koma mér almennilega af stað. Það er auðvitað viss árangur að vera búinn að skafa af sér einhver 25-26 kg , en ég þarf bara að sýna miklu meiri árangur til þess að ég geti verið tilbúinn að á einhverjum sáttum við sjálfan mig, líkamlega og andlega.

Ég vonast til þess að í næsta bloggi verð ég með jákvæðnina skrúfaða á hæsta styrkleika.

Kv. Binni

Sunday, February 12, 2012

Hollustan heldur áfram !

Hollustan heldur áfram.

Eftir viðburðaríka síðastliðna viku, þar sem óhollustupúkinn náði dauðagripi á líkama og sál og henti mér í lazy-boy stólinn og skipaði mér að éta og vera latur, þá hafa síðustu fjórir dagar verið mun skárri.

Líkaminn er byrjaður að taka aftur við sér, hollustan er byrjuð að kikka inn , maginn er ekki jafn útþembdur, vítamínin og lýsið öskra á mig á morgnana úr ísskápnum og gleðin og hamingjan er í fyrirrúmi.

Þessa helgina er ég að vinna 12 tíma vaktir á laugardegi og sunnudegi, sem getur verið ansi átakanlegt fyrir mig , þar sem ég sit í stól fyrir framan tölvuskjái í 24 tíma yfir helgina og lítil sem engin hreyfing á sér stað. Þó er ég duglegur við að standa upp, labba aðeins um og taka nokkrar Hlé-æfingar fyrir líkamann, því annars myndi ég fara yfirum.

Það skiptir alveg svakalega miklu máli að vera vel undirbúinn fyrir svona helgarvakt, enda væri það svakalega auðveld leið að panta sér bara pizzur alla helgina og éta sukkfæði. En ég kom vel undirbúinn fyrir þessa helgi og ég var að pæla í að gefa hollráð fyrir svona helgarvaktir, því ég þekki marga sem eru akkúrat í vaktavinnu.

Það sem ég geri á föstudegi er að steikja 4 kjúklingabringur og hafa þær svo bara tilbúnar inn í kæli. Ég tek með mér slatta af grænmeti (gulrætur,paprika,brokkolí,blómkál,tómatar), hrísgrjón, jógúrtsósu, skyr.is, bláber, granóla og ávexti. Þetta allt saman nær að ná utan um alla matartímana hjá mér.

Ég mæti í vinnu klukkan 8 að morgni til , og klukkan 9 fæ ég mér Skyr með granóla og bláberjum. Í hádegismatinn klukkan 12 fæ ég mér svo kannski Kjúkling, fersk grænmeti, hrísgrjón og jógúrtsósu. Klukkan 15 fæ ég mér ávöxt eða skyr og klukkan 18 fæ ég mér kjúklingasalat og nota jógúrtsósuna sem dressingu. Og vegna þess að ég steikti fjórar kjúklingabringur, þá á ég fyrir matnum daginn eftir og get tekið sömu rútínu, eða allavega samskonar rútínu í matartímunum. Með þessu drekk ég að sjálfsögðu nóg af vatni og þið takið eftir því að ég borða ávallt á þriggja tíma fresti - Það er þumalputtaregla númer 1 í mínum aðferðum við hollan lífsstíl.

Að taka svona uppbyggjandi helgi í vinnunni með mataræðið hressir,bætir og kætir og maður getur komið heim til sín rúmlega átta á sunnudagskvöldi og verið sáttur með sjálfan sig. Málið er nefnilega að ég vinn þannig vinnu að ef maður er að vinna um helgar eða á frídögum , þá borgar vinnan matinn fyrir mann. Þ.e.a.s , við megum panta okkur það sem við viljum , tökum kvittanir og vinnan borgar manni tilbaka næsta virka dag. Þetta er þægilegt kerfi .... enda hefur maður tekið allsvakalegar sukkhelgar. Ég get t.d nefnt ykkur sem dæmi þegar ég tók akkúrat svona dagvaktahelgavakt:

Á laugardeginum pantaði maður sér Dominos upp úr hádegi, allavega eina 16" pizzu, 16" hvítlauksbrauð, Brauðstangir og 2L Coke ... þetta er svona týpíski skammturinn. Þegar ég er í stuði þá á ég frekar auðvelt með að klára þetta allt saman áður en ég fer heim klukkan 8 um kvöldið . . oftast skil ég brauðstangirnar eftir svo ég geti nú örugglega troðið pizzunni og hvítlauksbrauðinu í fésið á mér. Svo er kannski Sunnudagurinn mjög svipaður ... þannig að maður VAR að innbyrða margfaldan kaloríuskammt á einni helgi og svo alla vikuna eftir var maður með samviskubit eftir þetta.

En núna er allt önnur tíð, ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því hvað ég get troðið miklum mat ofan í mig , þetta er alls ekkert leyndarmál ... ég veit alveg hvernig ég virka og ég veit hvernig ég get stoppað sjálfan mig af : HER-AGI í mataræðinu ... ekkert nema agi.

Markmið:

Ég steig á vigtina í morgun og ég er búinn að bæta á mig rúmlega 2,5 kg frá því 23.des .. sem er í sjálfu sér ekkert svo slæmt , þar sem ég er býsna fljótur að losa mig við aukakílóin. Það er árshátíð hjá vinnunni þann 17.mars og frá og með deginum í dag ætla ég að losa mig við 4 kg , ég gæti gert háleitari markmið en það , en ég held mig við skynsemina að þessu sinni. :)

Kv. Binni

Thursday, February 9, 2012

Játningar Matarfíkils...

Ég ætla að vera svolítið á einlægu tónunum í þessu bloggi.

Síðustu vikur hafa verið erfiðar , mjög erfiðar. Þetta byrjar náttúrulega allt saman með jólunum. Eftir margra vikna púl og erfiði við að taka mataræðið í gegn og hreyfa sig , koma nokkrir dagar um hátíðarnar þar sem maður leyfir sér að borða það sem maður vill, hvort sem það er sælgæti, góður matur eða vín með matnum. Maður hélt að þetta væri ekki að skipta svo miklu máli, því maður ætlaði sér aldeilis að komast á ról eftir þetta. En þá skullu áramótin á með öllu sínu veldi, áfengi og sukk. Nújæja .... núna voru allavega 13 dagar í að maður færi út til Manchester.

Þessir 13 dagar voru öflugir, mataræðið var í flottu lagi og maður hreyfði sig með samviskusamlega. En þá kom að ferðinni. Auðvitað leyfði maður sér það sem maður vildi þarna úti í 4 daga, drakk eins mikið áfengi og maður vildi og sukkaði í mataræðinu.

Eftir að maður kom heim frá Manchester þá hefur leiðin eiginlega legið niður í við í öllu saman. Það hefur verið erfiðara og erfiðara að halda sig við stíft mataræði og hreyfingu og svo kom sumarbústaðarferð þarna inn á milli þar sem maður fékk sér miklu óhollustu og lá í pottinum , þambandi á áfengi.

Þessi vika hefur verið algjört helvíti í raun og veru. Jóhanna er búin að liggja í flensu og ég hef verið frekar slappur sjálfur, og einhvern veginn andskotast maður til þess að finna sér ástæður til þess að "fá sér ís" eða "Kaupa sér snakk". Núna frá mánudegi til miðvikudags hef ég t.d verið að fá mér hálfan líter af ís, snakkpoka og nærri 2L af Coke-i DAGLEGA. Í gær var torgað nánast heillu 16" Meat and Cheese pizzu frá Dominos, "2L af Coke og Lay´s Snakkpoki ... með bestu lyst. Í gærkvöldi var ég líka kominn í brjálæðislegt mikið tremma yfir þessu, enda ekkert eðlilegt hversu mikið magn af óhollustu maður hefur verið að innbyrða í þessari viku.

Ég hef alltaf verið duglegur að segja það að það sé ekkert mál að hætta óhollustu og sykri og hvaðeina... en það hefur verið hreinasta lygi. Ég er matar og sykurfíkill... og það er bara það einfalt. Um leið og ég dett út af beinu leiðinni og stelst til þess að fá mér Pizzu eða snakk eða gos, þá er ég dottinn af vagninum. Það má líkja þessu við Alkóhólisma ... ég tek svona "túra" þar sem ég er bara hakkandi í mig mat og nammi og gosi og hugsa ekkert um sjálfan mig. Svo eftir nokkra daga er ég kominn í sykur-þynnku og verð alveg ferlegur í skapinu.

Ég er nú svosem ekki þekktur fyrir af vera skapmikill og þunglyndur maður, en þegar ég er búinn að vera í svona mikilli óhollustu í nokkra daga, þá fer það rosalega mikið í skapið á mér. Ég finn fyrir uppgjöf í öllum líkamanum og allri sálinni og hugurinn segir "Til hvers að reyna að halda sér í einhverju formi ... ég er hvort eð er feitur andlega... því ekki að vera það líkamlega líka??" - Þessar hugsanir eru hættulegar fyrir mig og koma upp oft, en ekki ef ég næ að halda mér á beinu brautinni í mataræðinu . . þá næ ég að halda þessu í skefjum og einbeita mér , enda þarf ég 110% einbeitningu ef ég á að halda mér að rækta líkamann og sálina.

Það þarf ekki nema eitt lítið "Æii .. það er nú í lagi þótt þú fáir þér smá kökur" frá einhverjum til þess að trufla mig í þessu og sem betur fer hefur flest fólk skilning á þessu, en það getur farið í mínar fínustu taugar þegar fólk hefur engan skilning á þessu og þykist vita betur og segir við mann að maður hafi nú gott af því að fá sér "Hitt og þetta". En málið er að ég get ekki verið að fá mér "Hitt og þetta" eða hvaða óhollustu sem er, því ég er með það mikla fíkn að þetta er eins og að bjóða alkóhólista upp á einn sjúss , því hann hefur nú alveg gott af því og það skaðar hann nú ekkert.

Þannig að ég vil endilega biðja það fólk sem ég umgengst og hitti , að gefa þessu skilning og reyna að skilja hvers vegna ég verð alltaf að taka 110% á því í mataræðinu hjá mér, því minnsta "brot" getur orsakað keðjuverkun í óhollustu og það fer beint í skapið á mér og mér líður illa.

Ég þurfti bara aðeins að pústa í þessu bloggi og koma þessu frá mér, enda ætla ég að taka allsvakalega á því næstu vikurnar.

Wish me luck.

Thursday, January 26, 2012

Snjó-hugvekja !!


Það er vetur - Þar hafið þið það !!!

Það þarf svosem ekkert að koma okkur á óvart að snjórinn og færðin eru að gera all geðveika, enda hefur ekki snjóað svona mikið í Höfuðborginni í mörg ár , ég hef allavega ekki lent í svona "miklum" snjó hérna fyrir sunnan síðan að ég flutti hingað fyrir 5 og hálfu ári síðan.

Mig langar einfaldlega til þess að biðja fólk, alla sem hafa kraft og þol og lífsgleði og hamingju ... bara allann pakkann , að hendast út fyrir eða eftir vinnu/skóla/hvað sem þið eruð að gera og taka upp skóflur og moka stæðin og göturnar hjá ykkur. Sjálfur hef ég verið duglegur við að moka bílastæðin í Kjarrhólmanum, og auðvitað ekki bara fyrir bílinn minn heldur fyrir aðra líka - Það væri alveg magnað ef að fleiri myndu taka sig til og taka upp skóflurnar og hjálpast að við að moka bílastæðin, því þau eru alltaf erfiðust á morgnana ... allavega hérna í Kjarrhólmanum í Kópavoginum. Fólk þarf að fara að nota heilann aðeins meira svona í morgunsárið og ekki bara setja í bakkgír og vaða í skafla ... Vakna hálftíma fyrr , fá sér kaffi og vaða svo í skaflana og byrja að moka - Þá er maður kominn með work-out dagsins , blóðið byrjað að renna vel um líkamann og maður vaknar svo sannarlega við þetta.

Mæli með því að fólk fari að moka, með bros á vör og hjálpi öðrum sem eru í vanda staddir í umferðinni ... þetta er ekkert grín fyrir suma.

Kv. Brosandi Binni með skóflu í hendi.


Monday, January 23, 2012

Hreyfing... lyfta... koma svoooo !!!


Jæja - Helgin sem leið fór nú ekki alveg eins og hún átti að fara í mataræðinu. Við Jóhanna misstum okkur einfaldlega í nammisukkinu og vorum í raun með nammidag bæði á laugardaginn og sunnudaginn . . þannig að maður er ekki alveg sáttur við sjálfan sig eftir svona helgi.

En það þýðir lítið að vera í einhverju svekkelsi út í sjálfan sig - Það eina sem að virkar er að drattast til að taka á þessum veikleika með jafnaðargeði og pressa á sjálfan sig til þess að gera enn betur á komandi vikum... sem við ætlum akkúrat að gera.

Í fyrsta lagi þá er ég á dagvöktum þessa vikuna, og því er tilvalið fyrir mig að taka íþróttafötin og skóna með , því ég er með líkamsræktaraðstöðu hérna í vinnunni og get því farið klukkan fjögur eftir vinnu og púlað. Þar sem ég hef ekki farið í ræktina lengi , út af brjósklosinu, þá mun ég einungis byrja á léttu skokki á hlaupabretti , magaæfingum, bakæfingum og léttum lyftingum. Ég er með program á gamla brettinu hérna, þar sem ég tek 12 mínútur í senn, hröð ganga í 1 mín í senn og skokk í 1 mín, skiptist á semsagt í 12 mínútur. Ég tek þetta tvisvar-þrisvar sinnum, eftir því hvað ég endist lengi. Eftir það þá er það bara dýna á gólfið að taka magaæfingar og inn á milli fer ég og tek bekkpressu, hnébeygjur og lyfti handlóðum. Ég reyni að vera í kringum klukkutíma í salnum að púla og svitna, en hef ekki miklar áhyggjur til að byrja með , enda þarf ég minn tíma til að koma mér í gang.

Í öðru lagi þá er ég (og Jóhanna) að fara að hætta þessum helvítis reykingum. Við keyptum okkur bæði karton áður en við fórum til Englands og ákváðum að það yrðu síðustu sígaretturnar okkar. Ég sagði alltaf að þegar pakkinn yrði kominn yfir 1000 kallinn þá myndi ég hætta þessu... sem ég ætla að standa við. Það þýðir líka að ég mun ekki fá mér sopa af áfengi á næstunni, þar sem þetta tvennt helst afskaplega vel í hendur... ætla ekki að falla á tæknilegum mistökum eins og áfengissulli. Maður ætti kannski ekki að vera að auglýsa þetta eitthvað mikið, því það hefur mistekist frekar oft að hætta þessum reykingum.... en ég er staðráðinn í þetta skiptið og núna skal maður hætta þessu !! Ég spara þá frekar peninginn af þessu og fer til útlanda... því miðað við hvað ég reyki (pakki á tveimur dögum) , þá er það í kringum 185 þús krónur á ári ... og svo reykir Jóhanna líka svipað , þannig að þetta er í kringum 370 þús krónur á ári sem fara í sígaretturnar ... það er hægt að fara í fína ferð til sólarlanda fyrir þann pening, og ég ætla líka að verðlauna okkur þannig í sumar, ÞEGAR(ekki ef) okkur hefur tekist þetta markmið okkar. HARKAN SEX og ekkert annað !!!

Mataræðið verður tekið hörðum höndum næstu vikurnar semsagt og þar sem það verður ekkert áfengi fyrr en á árshátíð RB þann 17.mars næstkomandi, þá vil ég biðjast fyrirfram afsökunar á engu félagslífi frá mér , ég vona bara að vinir og kunningjar skilji að þessi lífsstíll fellur bara ekki undir mikið af djammi og sukki. Sumir gætu spurt "En af fara bara edrú niður í bæ" - Það er alveg "valid" spurning, en málið er að ég skemmti mér ekki edrú niður í bæ, og undanfarið hef ég ekki skemmt mér vel í glasi heldur. Ég er að verða 28 ára gamall og hef ekki lengur þessa löngun til þess að vera að taka flest allar helgar í djamm. Bæði hef ég ekki tíma , peninga og orku í þetta líf lengur. Árið 2012 á líka að vera mjög skynsamlegt hjá mér og munu einhver djömm vera rosalega mikið "Spari" hjá mér.

Gangi mér vel og gangi ykkur vel :)

Kv. Binni



Friday, January 20, 2012

Smá pepp öpp !!! ... og uppskrift !!



Það getur verið drulluerfitt að koma sér í rútínu aftur eftir sukkið síðustu vikur - En ég er ákveðinn að halda áfram mínu striki og borða hollt og hreyfa mig af bestu getu , fann það alveg í Bretlandi hvað mér leið illa alltaf í öllum líkamanum á mataræðinu sem ég var á þar.

Ekkert nema bjartsýni og góðir tímar framundan - Læt ekki leiðindarveður og kulda slá mig út af laginu - Áfram Áfram !!!

Ég er að pæla í að henda inn uppskrift af frábærum kjúklingarétt sem mér tókst að galdra fram úr erminni, eftir að hafa notað kokteiltómata í krukku.

Kokteil-Kjúklingaréttur.

Sósan:

1 krukka af kokteiltómötum í olíu (nota sem bara helminginn af olíunni)
2 tómatar
Hálf rauð paprika
1 stöng sellerí
Salt og pipar
1 stykki Shallotlaukur.

Þetta er allt sett saman í blandara, skorið niður sem þarf , og blandað þangað til að sósan er orðin silkimjúk og fín.

Síðan er steikt á pönnu:

1 Kjúklingabringa , skorin í strimla eða bita
Hálf rauð paprika
1 laukur
2 tómatar
(annað grænmeti valfrjálst)

Þegar búið er að steikja þetta allt saman þá er sósunni hellt yfir og leyft að malla. Þetta er æðislegt með hrísgrjónum og jafnvel fersku salati :)

Njótið vel :)

Wednesday, January 18, 2012

Manchester England England....


Þessi mynd segir kannski allt sem segja þarf um þessa Manchester-ferð okkar um helgina. Þarna er ég með fjórfaldan hamborgara með beikoni og laukhringjum,franskar, stóran bjór og jarðaberjakokteil.

Ég er nú kannski ekki að segja að maður hafi verið á þessu fæði alla daga þarna úti, þessi máltíð er kannski sú ýktasta . . en maður leyfði sér allt. Maður fékk sér breskan mat, indverskan mat, kínverskan mat, ítalskan mat og Jóhanna náði jafnvel að plata mig einu sinni á McDonalds (sem var ógeðslegt eins og alltaf).

En þegar maður tekur einhverja 5 daga og leyfir sér allt sem maður vill , þá segir maginn og líkaminn líka bara STOPP stundum , maður var stundum helvíti slappur inn á milli. Svo til að kóróna allt pöntuðum við okkur Dominos pizzur þegar við komum heim til Íslands.

Svo þegar ég steig á vigtina í gærmorgun kom það í ljós að ég hafði náð að bæta á mig rúmum fjórum kílóum frá fimmtudegi til þriðjudags, sem verður að teljast ágætis árangur. Þetta kom mér svosem ekkert á óvart, enda er líkamsstarfssemin mín þannig, að ég er jafnfljótur að bæta á mig , eins og ég er að losa mig við þyngdina, þess vegna þarf ég alltaf að vera á tánum með það hvað ég borða.. það er bara þannig.

Næstu vikur fara svo í það að koma sér í gang almennilega eftir jólin, áramótin og England og taka hörkuna á þetta . . enda þarf maður að líta vel út í öllum þessum fötum sem maður keypti sér út í Manchester.

En nóg komið af át-bloggi .... Þetta verður heilsusamlegra næst.

Kv. Binni

Wednesday, January 11, 2012

Að léttast - Daglega rútínan !


Það sem skiptir máli , þegar maður er að losa sig við aukakílóin, er mataræðið. Ég myndi áætla að mataræðið sé svona 80% og hreyfing 20% , þannig eru allavega hlutföllin hjá mér. Gullna reglan er sú að borða á þriggja tíma fresti, skynsamlega skammta og ekki gúffa í sig stórum máltíðum. Maður á náttúrulega að reyna að dúndra í sig eins miklum ávöxtum og grænmeti og maður getur og auðvitað próteinum. Það getur verið árangursríkt að sneiða framhjá öllum kolvetnum, en í rauninni þarf maður kolvetni í líkamann og því ekki skynsamlegt að sneiða algjörlega framhjá þeim .. nema að þú sért í leiðinni í eitthvað fitness-program og þarft að helskafa þig.

Í þessari viku hefur matarprógramið mitt verið svohljóðandi:


Byrja á því að taka lýsi , járn og fjölvítamín þegar ég vakna.

9:00 - Vanillu skyr.is með granóla úr Bónus, rúsínum og frosnum bláberjum
12:00 - Fiskisúpa sem inniheldur þorsk, sætar kartöflur og lauk
15:00 - Berja boozt úr síðasta bloggi
18:00 - Sama og morgunmaturinn.
21:00 - Ef ég er svangur þá hef ég fengið mér hrökkkexið frá Ágústu Johnson

Þetta er svosem ekki venjuleg rútína hjá mér, því oftast er ég með heitan mat bæði í hádeginu og á kvöldin , en þar sem maður er að fara til Englands á föstudaginn þar sem ég mun leyfa mér að sukka í nokkra daga, þá getur verið ágætt að taka heitan mat í hádeginu og léttan mat í kvöldmat.. það róar magann aðeins.


Þegar ég tók mig á árið 2008 og byrjaði að létta mig í fyrsta skipti þá var ég hins vegar að borða mun meira, því að bakið á mér var ekki jafn slæmt og það er núna, og þá var ég í ræktinni 5-6 sinnum í viku og körfubolti þar inn á milli. Þá varð ég að passa mig á því að innbyrgja nóg af kalóríum til að brennslan myndi skila sér almennilega. Ég ætla að pósta venjulegum degi hjá mér í mataræðinu þegar ég var að skila sem mestum árangri !


07:00 - All bran með Fjörmjólk og rúsínum, lýsi, vítamín, járn
10:00 - Próteinsjeik og ávöxtur
13:00 - Kjúklingabringa m/fersku grænmeti og hrísgrjón
16:00 - Vanillu skyr.is eða ávöxtur og próteinsjeik
19:00 - Sama og klukkan 13 , nema ég fékk mér stundum Lax í staðinn og minna af hrísgrjónum.
22:00 - Ávöxtur eða frosnir ávextir.

Próteinsjeikinn fékk ég mér venjulega eftir æfingar. Það er auðvitað hægt að svissa út hinu og þessu, en þetta virkaði fyrir mig og virkar ennþá fyrir mig og ég vona bara að fólk geti notað þessar upplýsingar ef það er að hugsa um að grennast og breyta um lífsstíl.

Munið að ég er ekkert að alhæfa neitt og ég reyni að tala sem minnst út um rassgatið á mér.

Kv.Binni

Fæða dagsins: Frosin bláber.

Monday, January 9, 2012

Boozt Boozt Boozt !!


Það getur verið smávegis höfuðverkur að finna sér eitthvað millimál sem er næringarríkt og sömuleiðis gott á bragðið. Ávaxta-boozt geta verið rosalega góð leið til þess að nærast á á milli hádegis og kvöldverðs, jafnvel sem kvöldsnakk eða máltíð eftir morgunmat. . semsagt sem millimáltíð. Ég hef prófað mig áfram á alls konar boozt-um, en grunnurinn er ávallt frosin jarðarber og Vanillu skyr.is hjá mér - Ég mæli með því að fólk smakki sig áfram og prófi eitthvað nýtt þangað til að það finnur sér "hina fullkomnu blöndu". Ég læt fylgja með eina góða boozt-blöndu sem ég dúndraði saman í dag ... ég læt engar sérstakar mælieiningar fylgja með , maður blandar bara þeim hlutföllum sem manni langar.



Berja-Boozt-Binna.

2/4 Frosin jarðarber
1/4 Frosnir bananar
1/4 Frosinn ananas
Smávegis af Goji-Berjum
Vanillu Skyr.is
Skvetta af trönuberjasafa

Þessu er öllu saman hent í blandara og blandað þangað til að þetta er orðið að góðri blöndu. Ef að blandarinn þolir ekki öll þessi frosnu ber, þá er góð leið að þíða berin fyrst, og ef maður vill þykkja þetta eitthvað þá getur maður látið ísmola saman við þegar þetta er að blandast, einn í einu, þangað til að blandar er orðin að meira "krapi"

Ég mæli einnig með bláberjum og öllum þeim frosnu ávöxtum sem þið komist í :)

Sunday, January 8, 2012

Að gera vel við sig !

Þrátt fyrir alla lifnaðarhætti hollustulífsins , þá er ég ennþá mikill matgæðingur. Ég elska mat og hef sérlega mikla ástríðu í því að elda góðan mat. Þess vegna reyni ég að gera vel við okkur Jóhönnu um helgar og reyni að elda góðan mat. Ég fann um daginn eina auðveldustu uppskrift af rauðvínssósu á netinu og ég verð að segja að þetta er orðin uppáhalds sósan mín ... jafnvel betri en sósan á Jensen´s Böfhus , sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi þegar maður fer til Sverige eða DK.

Hérna er mín samsetning á yndislegum laugardagsmat og hvernig ég elda þetta allt saman.

Lambafillet með ofnbökuðum kartöflum, steiktu grænmeti og rauðvínssósu.

Ég reikna með uppskrift fyrir 2 þannig að ég byrja á því að taka eina sæta kartöflu og 3-4 venjulegar kartöflur. Sker þær í hæfilega þykkar sneiðar og legg í bleyti í smá stund. Tek þær síðan úr vatninu og set á ofnplötu með bökunarpappír undir. Skvetti smá ólífuolíu á þær og set inn í ofninn sem ég stilli á 180 gráður. Þær þurfa alveg góðan klukkutíma í ofni, ef ekki lengur. Það getur verið gott að láta bara venjulega kartöflurnar fyrst og henda svo inn sætu kartöflunum eftir svona korter , því þær þurfa styttri tíma inn í ofni.

Á meðan kartöflurnar eru að krauma , þá tekur maður lambafillet og "lokar" þeim á sjóðheitri pönnu með smá olíu. Loka öllum hliðum með því að steikja þær í 1-2 mínútur á hliðunum. Krydda með salti og pipar og setja þær í eldfast mót - Þær þurfa að vera svona hálftíma - 45 mínútur, fer eiginlega allt eftir þykkt kjötsins og einnig eftir því hvernig þið viljið kjötið ykkar. Ég miða út frá Medium-Rare , en gott er að eiga kjöthitamæli til þess að fylgjast með steikingunni. Reynið að tímasetja það hvenær þið látið inn kjötið , miðað við kartöflurnar , svo allt sé tilbúið á svipuðum tíma.

Rauðvínssósan:

3 dl vatn
2 kjötkraftsteningar
2 dl rauðvín
30 gr smjör
6 shallot-laukar
salt og pipar
olía
Smjörbolla til að þykkja sósuna.
Sósulitur.

Aðferð:
1. Saxið niður laukana mjög smátt niður og steikið létt í olíu
2. Hellið rauðvíninu saman við og leyfið að sjóða niður um helming , það gæti tekið um 5-7 mínútur
3. Bætið þá við vatninu og teningunum og smjörinu og hrærið vel þangað til allt er búið að leysast upp. Setjið salt og pipar og smakkið til og sósulitinn til að fá fallegan lit á sósuna. Til þess að þykkja sósuna , þá er fínt að hræra saman bráðnu smjöri og hveiti/spelti og hræra svo út í.
4. Leyfið sósunni að sjóða síðan á vægum hita í smá stund.

Með þessu öllu saman er svo gott að steikja grænmeti á pönnu og er það náttúrulega eins auðvelt og það hljómar. Við skerum niður sveppi, rauða papriku og rauðlauk. Steikjum síðan á pönnu og kryddum aðeins með salti og pipar og jafnvel einhverjum kryddjurtum eins og timjan, rósmarín eða einhverju góðu grænu kryddi. Steikt þangað til að grænmetið er orðið fallega gulllitað og girnilegt.

Núna ætti allt "Preppið" að vera tilbúið og þá er bara að tímasetja sig vel með allt saman. Kjötið og kartöflurnar eru náttúrulega það sem þarf einna helst að vera á sama tíma tilbúið, sósuna má gera á undan og hita síðan upp , og grænmetið tekur minnsta tímann.

Ekta laugardagsmatur og alls ekki mikil fyrirhöfn og kostnaður "hæfilega" mikill.

Njótið vel :)